Íslenska golffatamerkið Brutta Golf hefur opnað Pop-up verslun á Hafnartorgi út desembermánuð. Brutta Golf, sem er fyrsta íslenska golffatamerkið, kom á markað fyrr í sumar 2022.

Styrmir Erlendsson, nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, er stofnandi Brutta Golf en hann fékk hugmyndina að fatamerkinu árið 2017. Hann fór til Balí í sex mánuði og byrjaði að vinna að merkinu og seldi fyrstu flíkina árið 2018. Hann fékk golf-æði og fór að þróa og huga að fyrstu línunni sumarið 2021, sem kom síðan út fyrr í sumar 2022.

Nú er önnur línan komin til landsins í Pop-up verslun á Hafnartorgi. Þá er næsta lína golffatamerkisins nú þegar í þróun.

Brutta Golf verður með „Pop-up“ búð á Hafnartorgi út desembermánuð.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þrír félagar úr Árbænum

Ragnar Bragi Sveinsson og Ágúst Freyr Hallsson bættust við sem eigendur Brutta síðla sumars 2022, en þeir eru báðir upprennandi frumkvöðlar og koma með reynslu úr rekstri inn í félagið. Þeir Styrmir, Ragnar og Ágúst ólust upp í Árbænum og spiluðu saman hjá Fylki.

Ágúst er stofnandi og annar eigandi Maikai, sem býður upp á ferskar Acai skálar, en staðurinn hefur stækkað hratt að undanförnu. Ragnar er einn af stofnendum og annar eigandi Alendis sem er fyrsta streymisveita Íslenska Hestsins. Þá er Ragnar fyrirliði Fylkis í bestu deild karla í knattspyrnu.

Vörur Brutta Golf eru einnig fáanlegar í gegnum netverslun félagsins og í golfbúðum.