Í dag skrifuðu Kadeco (Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar), Reykjanesbær og byggingafélagið Stofnhús undir samning um þróun og uppbyggingu íbúðarbyggðar á svonefndum Suðurbrautarreit á Ásbrú.

Um er að ræða fyrstu húsnæðisuppbygginguna á Ásbrú eftir brotthvarf Bandaríkjahers.

Reiturinn er miðsvæðis á Ásbrú, um 33 þúsund fermetrar að flatarmáli og kveður samningurinn á um að á reitnum verði byggðar að lágmarki 150 íbúðir.

Í dag skrifuðu Kadeco (Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar), Reykjanesbær og byggingafélagið Stofnhús undir samning um þróun og uppbyggingu íbúðarbyggðar á svonefndum Suðurbrautarreit á Ásbrú.

Um er að ræða fyrstu húsnæðisuppbygginguna á Ásbrú eftir brotthvarf Bandaríkjahers.

Reiturinn er miðsvæðis á Ásbrú, um 33 þúsund fermetrar að flatarmáli og kveður samningurinn á um að á reitnum verði byggðar að lágmarki 150 íbúðir.

Í tilkynningu segir að samið hafi verið um að Stofnhús myndi greiða Kadeco 150 milljónir króna fyrir byggingarréttinn og myndi þá Reykjanesbær meðal annars koma að uppbyggingu nýrra gatna í tengslum við verkefnið.

Deiliskipulag um svæðið verður þá gert á grunni nýs rammaskipulags fyrir Ásbrú þar sem gert er ráð fyrir lágreistri en fjölbreyttri byggð fjölbýlishúsa í anda þess byggðamynsturs sem fyrir er á svæðinu. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag fyrir reitinn verði kynnt og auglýst næsta vetur og þess er vænst að uppbygging geti hafist fljótlega í kjölfarið.

„Þessi samningur er mikið fagnaðarefni en með honum er stigið stórt skref í uppbyggingu á Ásbrú. Áætlanir um framtíðaruppbyggingu á svæðinu eru mjög metnaðarfullar enda höfum við fundið fyrir miklum áhuga úr ýmsum áttum á svæðinu og það er einstaklega ánægjulegt að við getum lagt okkar að mörkum í framtíðaruppbyggingu á svæðinu,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.