Alþjóðlega lyfjafyrirtækið Stada hefur hafið sölu á Hukyndra (adalimumab) líftæknihliðstæðulyfi Alvotech, í Frakklandi, Þýskalandi, Finnlandi og Svíþjóð. Dreifing og sala hefst í öðrum Evrópulöndum á komandi mánuðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Alvotech.
Adalimumab er fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan sem Stada markaðssetur samkvæmt samningi við Alvotech, sem sér um þróun og framleiðslu, en samstarf fyrirtækjanna nær alls til sjö líftæknilyfjahliðstæða sem ætlaðar eru til meðferðar við sjálfsofnæmissjúkdómum, augnsjúkdómum og krabbameini. Meðal þeirra hliðstæða sem samstarfið nær til er AVT04 (ustekinumab), en Alvotech kynnti nýlega niðurstöður rannsóknar sem sýndi sömu klínísku virkni líftæknilyfjahliðstæðunnar og samanburðarlyfsins Stelara.
Fyrr í vikunni samþykktu hluthafar sérhæfða yfirtökufélagsins Oaktree Acquisition Corp. II samruna við Alvotech. Stefnt er að því að skrá hlutabréf Alvotech til viðskipta á Nasdaq-markaðnum í New York þann 16. júní og á íslenska First North-markaðnum þann 23. júní.