Eagle Football Holdings samstæðan, sem festi nýlega kaup á franska knattspyrnufélaginu Olympique Lyonnais, hyggst fara á bandarískan hlutabréfamarkað í gegnum samruna við sérhæft yfirtökufélag (e. SPAC). Þetta yrði fyrsti slíka skráningin í fótboltaheiminum, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Eagle, sem Bandaríkjamaðurinn John Textor stýrir, eignaðist 78% hlut í Lyon fyrir rúmum mánuði síðan. Franska úrvalsdeildarliðið var metið á 800 milljónir evra eða um 120 milljarða króna í viðskiptunum.

Samstæðan á einnig 40% hlut í enska úrvalsdeildarliðinu Crystal Palace, brasilíska knattspyrnuliðið Botafogo og belgíska liðið RWD Molenbeek.

Eagle hefur náð samkomulagi um að sameinast SPAC-félaginu Iconic Sports Acquisition Corp en fótboltasamstæðan er metin á 1,2 milljarða dala. Horft er til þess að ljúka samrunanum í ár, samkvæmt heimildarmanni FT.

Fótboltasamstæður sem fjárfesta í fleiri en einu félagi í mismunandi löndum eru að verða sífellt algengari í fótboltaheiminum. Til eru fleiri en 70 slíkar samstæður samkvæmt greiningu Deloitte.