Hvalur hf. var rekið með 224 milljóna króna tapi á síðasta rekstrarári, sem nær yfir tímabilið 1. október 2023 til 30. september 2024. Um var að ræða verulegan viðsnúning frá fyrra rekstrarári er hagnaður félagsins nam tæplega 3,5 milljörðum. Félagið skilaði síðast tapi árið 2010.
Tekjur Hvals drógust saman um 7,3 milljarða, eða 84%, á milli rekstrarára, úr 8,7 milljörðum í 1,4 milljarða. Munaði þar mest um að fjáreignartekjur drógust saman um 4,1 milljarð á milli rekstrarára, eða um 78%, úr 5,3 milljörðum í 1,2 milljarða. Að sama skapi drógust aðrar rekstrartekjur saman um 3,2 milljarða, úr 3,5 milljörðum í 213 milljónir, eða um 94%. Samdrátturinn í öðrum rekstrartekjum skýrist af því að félagið seldi hvalaafurðir fyrir aðeins 19 milljónir króna á síðasta rekstrarári, samanborið við 3,4 milljarða sölu rekstrarárið á undan.
Umdeild frestun Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, á hvalveiðum degi áður en Hvalur áætlaði að hefja hvalveiðar sumarið 2023 skýrir væntanlega þennan mikla sölusamdrátt.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.