Verðhjöðnun er að eiga sér stað í Kína í fyrsta sinn í tvö ár en vísitala neysluverðs lækkaði þar í landi um 0,3% í júlí. Nýjustu tölurnar koma í kjölfar fregna þess efnis að vöruútflutningur frá Kína hafi einnig dregist saman um 14,5% í sama mánuði.

Kína hefur undanfarna mánuði reynt að koma efnahag sínum af stað á ný eftir heimsfaraldur en það hefur gengið erfiðlega.

Yfirvöld í Kína glíma nú við miklar skuldir hjá sveitarfélögum, vandamál á húsnæðismarkaði og hæstu atvinnuleysistölur meðal ungs fólks í sögu þjóðarinnar. Ofan á það eru rúmlega 12 milljónir nýútskrifaðir háskólanemar sem munu fara inn á vinnumarkaðinn í haust.

Verðhjöðnunin samsvarar ekki aðeins minnkandi eftirspurn meðal neytenda í Kína heldur mun verðlækkun einnig gera það að verkum að erfiðara verði fyrir stjórnvöld að greiða upp skuldir sínar.

„Það er engin leynisósa sem hægt er að nota til að lyfta upp verðbólgu. Þetta verður bara einföld blanda af auknum ríkisútgjöldum og lægri sköttum, samhliða skilningsvirkari peningamálastefnu,“ segir Daniel Murray hjá fjárfestingarfyrirtækinu EFG Asset Management.

Kína fór aðra leið

Á meðan mikil uppsveifla átti sér stað í mörgum löndum eftir heimsfaraldur var það ekki raunin hjá Kínverjum. Íbúar í Evrópu og Bandaríkjunum voru til að mynda með mikið uppsafnað fé og áttu mörg fyrirtæki í erfiðleikum með að mæta allri eftirspurninni.

Kína hefur í raun verið á barmi verðhjöðnunar í langan tíma en minnkandi eftirspurn í landinu hefur haldist í hendur við þá staðreynd að kínversk stjórnvöld voru mun tregari en önnur ríki að aflétta sóttvarnarreglum.

„Spurning er hvort ríkisstjórnin muni ná að endurheimta traust almennings“

Þyngri sóttvarnarreglur leiddu til minnkandi tekna meðal almennings sem býr yfir menningu sem hefur ætíð talað fyrir mikilli sparsemi. Þar að auki myndaðist mikil óvissa og kreppa, ekki síst vegna hruns fasteignafyrirtækisins Evergrande.

Eswar Prasad, prófessor í viðskipta- og hagræði við Cornell-háskóla, segir mikilvægasta verkefni kínverskra stjórnvalda vera að endurheimta traust almennings á hagkerfinu.

„Spurning er hvort ríkisstjórnin muni ná að endurheimta traust almennings á einkageiranum þannig fólk geti byrjað að eyða pening á ný í stað þess að spara. Fyrirtæki munu einnig þurfa að byrja að fjárfesta aftur en það hefur ekki gerst. Ég held að við munum sjá stórar örvunaraðgerðir og skattalækkanir,“ segir Prasad.