Orkustofnun afgreiddi í dag virkjunarleyfi fyrir vindorkuverið Búrfellslund við Vaðöldu. Í kjölfarið mun Landsvirkjun sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Rangárþings ytra.
Gert er ráð fyrir að 28-30 vindmyllur rísi á 17 ferkílómetra svæði sunnan við Sultartangastíflu. Uppsett afl verður um 120 MW og árleg orkuvinnslugeta 440 GWst.
Orkustofnun afgreiddi í dag virkjunarleyfi fyrir vindorkuverið Búrfellslund við Vaðöldu. Í kjölfarið mun Landsvirkjun sækja um framkvæmdaleyfi til sveitarstjórnar Rangárþings ytra.
Gert er ráð fyrir að 28-30 vindmyllur rísi á 17 ferkílómetra svæði sunnan við Sultartangastíflu. Uppsett afl verður um 120 MW og árleg orkuvinnslugeta 440 GWst.
Frá þessu greinir Landsvirkjun í tilkynningu en Búrfellslundur hefur verið í nýtingarflokki rammaáætlunar frá árinu 2022 og rannsóknir hafa staðið yfir um árabil.
Landsvirkjun hefur þegar gengið frá tengisamningi við Landsnet og er verið að leggja lokahönd á samning um lands- og vindorkuréttindi við ríkið. Jarðtæknirannsóknir hófust þá í vor og er gert ráð fyrir að þeim ljúki í haust.
Útboð á vindmyllum fyrir Búrfellslund var auglýst fyrr á árinu, með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál. Sú leið var var farin þar sem hún var talin styrkja líkurnar á að vindmyllurnar verði farnar að skila orku inn á raforkukerfið fyrir árslok 2026.
Gangi allt eftir hvað varðar tilskilin leyfi mun stjórn Landsvirkjunar taka endanlega ákvörðun um hvort ráðist verði í verkefnið.
Umræða um orkuskort hefur verið áberandi hér á landi undanfarið en ítrekað hefur verið bent á að þörf sé á aukinni orkuvinnslu.
Í nýlegri skýrslu Landsnets var meðal annars bent á að breytilegir orkugjafar á borð við vindorku þyrftu að koma inn til að geta mætt fyrirséðri eftirspurn. Þá væri kostnaðarábatinn mikill.