Stefnir hf., eitt stærsta eignastýringarfélag Íslands, hefur gert samstarfssamning við HILI með það að markmiði að opna aðgang að nýjum eignaflokki fyrir fjárfesta með því að fjárfesta í vönduðum íbúðareignum á Íslandi í gegnum nýja sameignarlausn sem HILI hefur þróað.
HILI er nýsköpunarfyrirtæki sem hefur þróað sveigjanlegt viðskiptamódel þar sem fasteignaeigendum gefst kostur á að selja hluta af fasteign sinni til sjóðsins en halda um leið áfram að búa í henni.
„Við nýtum reynslu okkar á eignastýringarmarkaði og vettvang HILI til að stuðla að stækkun sameignarforms á íbúðamarkaði á Íslandi,“ segir Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis.
„Í gegnum HILI getum við veitt fjárfestum aðgang að fjölbreyttu safni vandaðra íbúðaeigna án þess að fjárfestar þurfi að standa í rekstri fasteigna. Þannig bjóðum við nýjan fasteignatryggðan eignaflokk með miklum vaxtarmöguleikum. Samstarf okkar við HILI er að okkar mati rökrétt framhald þess að við leiddum þá vinnu að hópur lífeyrissjóða festi kaup á Heimstaden hf. í fyrra, en það er stærsta íbúðaleigufélag Íslands sem eigandi að 1.900 íbúðum á þeim tíma.“

Samstarf Stefnis og HILI er skref í að útbreiða sameignarformið um allt land samkvæmt félögunum tveimur.
Stefnir er með um 341 milljarð króna í stýringu í fjölbreyttum eignaflokkum, svo sem innlendum og erlendum skráðum hlutafélögum, óskráðum innlendum hlutafélögum, ríkisskuldabréfum, fyrirtækjaskuldabréfum, á peningamarkaði og í fasteignum.
Í fréttatilkynningu segir að Stefnir hefur góða reynslu á sviði fasteignafjárfestinga en fyrsti sjóðurinn um sameignarformið á fasteignum, HILI I slhf., verður fimmti fasteignasjóðurinn sem Stefnir hf. stofnar.
HILI hjálpar eigendum að losa um bundið fé úr fasteignum sínum og nýjum íbúðareigendum á markaðinn
Fyrir marga fasteignaeigendur er stór hluti eigna bundinn í heimilinu en HILI býður sveigjanlega lausn sem gerir þeim kleift að losa hluta af því fé með því að selja hluta eignarinnar en halda áfram að búa í henni.
„Þetta samkomulag markar upphaf langtímasamstarfs við Stefni“ segir Sigurður Viðarsson, framkvæmdastjóri HILI á Íslandi. „Við erum að kynna nýjan og áhugaverðan eignaflokk fyrir íslenskum fjárfestum, með því að bjóða ný fjárfestingartækifæri í fasteignum. Stefnir mun gegna lykilhlutverki í rekstri og fjármögnun íbúðasjóðs HILI og styðja við útbreiðslu sameignarvettvangs á Íslandi. Þá er einnig ljóst að sameignarform mun jafnframt nýtast vel þeim sem eru að fjárfesta á fasteignamarkaði eða færa sig á milli fasteigna.“
HILI starfar nú þegar á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og hyggst stækka frekar í Evrópu.
Á Íslandi hefur eftirspurn verið mikil en yfir 300 fasteignaeigendur hafa nú þegar skráð sig á biðlista til að kanna möguleikann á að selja hluta af eign sinni til sjóðsins, jafnvel þó að starfsemi fyrsta sjóðsins sé ekki enn hafin.
„Við höfum nú þegar fundið fyrir miklum áhuga á íslenska markaðnum og með Stefni sem samstarfsaðila erum við vel í stakk búin til að stækka starfsemina og auka sveigjanleika fyrir fasteignaeigendur,“ segir Eilin Schjetne, forstjóri og stofnandi HILI. „Reynsla Stefnis á íslenskum fasteignamarkaði og tengsl við fjárfesta mun styðja við uppbyggingu okkar á Íslandi. Þetta stefnumiðaða samstarf undirstrikar mikilvægi sveigjanlegra eignarforma og styður við víðtækari áætlanir HILI um útbreiðslu í Evrópu.“