Stefnir hf., eitt stærsta eignastýringarfélag Ís­lands, hefur gert sam­starfs­samning við HILI með það að mark­miði að opna að­gang að nýjum eigna­flokki fyrir fjár­festa með því að fjár­festa í vönduðum íbúðar­eignum á Ís­landi í gegnum nýja sam­eignar­lausn sem HILI hefur þróað.

HILI er nýsköpunar­fyrir­tæki sem hefur þróað sveigjan­legt við­skipta­módel þar sem fast­eigna­eig­endum gefst kostur á að selja hluta af fast­eign sinni til sjóðsins en halda um leið áfram að búa í henni.

„Við nýtum reynslu okkar á eignastýringar­markaði og vett­vang HILI til að stuðla að stækkun sam­eignar­forms á íbúða­markaði á Ís­landi,“ segir Jón Finn­boga­son, fram­kvæmda­stjóri Stefnis.

„Í gegnum HILI getum við veitt fjár­festum að­gang að fjöl­breyttu safni vandaðra íbúða­eigna án þess að fjár­festar þurfi að standa í rekstri fast­eigna. Þannig bjóðum við nýjan fast­eigna­tryggðan eigna­flokk með miklum vaxtar­mögu­leikum. Sam­starf okkar við HILI er að okkar mati rökrétt fram­hald þess að við leiddum þá vinnu að hópur líf­eyris­sjóða festi kaup á Heimsta­den hf. í fyrra, en það er stærsta íbúða­leigufélag Ís­lands sem eig­andi að 1.900 íbúðum á þeim tíma.“

Sigurður Viðarsson (framkvæmdastjóri, HILI á Íslandi), Eilin Schjetne (forstjóri og stofnandi HILI), Kristbjörg M. Kristinsdóttir (fjármálastjóri, Stefnir) og Jón Finnbogason (framkvæmdastjóri, Stefnis).
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sam­starf Stefnis og HILI er skref í að út­breiða sam­eignar­formið um allt land samkvæmt félögunum tveimur.

Stefnir er með um 341 milljarð króna í stýringu í fjöl­breyttum eigna­flokkum, svo sem inn­lendum og er­lendum skráðum hluta­félögum, óskráðum inn­lendum hluta­félögum, ríkis­skulda­bréfum, fyrir­tækja­skulda­bréfum, á peninga­markaði og í fast­eignum.

Í frétta­til­kynningu segir að Stefnir hefur góða reynslu á sviði fast­eigna­fjár­festinga en fyrsti sjóðurinn um sam­eignar­formið á fast­eignum, HILI I slhf., verður fimmti fast­eigna­sjóðurinn sem Stefnir hf. stofnar.

HILI hjálpar eig­endum að losa um bundið fé úr fast­eignum sínum og nýjum íbúðar­eig­endum á markaðinn

Fyrir marga fast­eigna­eig­endur er stór hluti eigna bundinn í heimilinu en HILI býður sveigjan­lega lausn sem gerir þeim kleift að losa hluta af því fé með því að selja hluta eignarinnar en halda áfram að búa í henni.

„Þetta sam­komu­lag markar upp­haf langtíma­sam­starfs við Stefni“ segir Sigurður Viðars­son, fram­kvæmda­stjóri HILI á Ís­landi. „Við erum að kynna nýjan og áhuga­verðan eigna­flokk fyrir ís­lenskum fjár­festum, með því að bjóða ný fjár­festingar­tækifæri í fast­eignum. Stefnir mun gegna lykil­hlut­verki í rekstri og fjár­mögnun íbúða­sjóðs HILI og styðja við út­breiðslu sam­eignar­vett­vangs á Ís­landi. Þá er einnig ljóst að sam­eignar­form mun jafn­framt nýtast vel þeim sem eru að fjár­festa á fast­eigna­markaði eða færa sig á milli fast­eigna.“

HILI starfar nú þegar á Ís­landi, í Noregi, Svíþjóð og Dan­mörku og hyggst stækka frekar í Evrópu.

Á Ís­landi hefur eftir­spurn verið mikil en yfir 300 fast­eigna­eig­endur hafa nú þegar skráð sig á biðlista til að kanna mögu­leikann á að selja hluta af eign sinni til sjóðsins, jafn­vel þó að starf­semi fyrsta sjóðsins sé ekki enn hafin.

„Við höfum nú þegar fundið fyrir miklum áhuga á ís­lenska markaðnum og með Stefni sem sam­starfsaðila erum við vel í stakk búin til að stækka starf­semina og auka sveigjan­leika fyrir fast­eigna­eig­endur,“ segir Eilin Schjet­ne, for­stjóri og stofnandi HILI. „Reynsla Stefnis á ís­lenskum fast­eigna­markaði og tengsl við fjár­festa mun styðja við upp­byggingu okkar á Ís­landi. Þetta stefnu­miðaða sam­starf undir­strikar mikilvægi sveigjan­legra eignar­forma og styður við víðtækari áætlanir HILI um út­breiðslu í Evrópu.“