Hlutfall fyrstu kaupenda lækkaði talsvert á þriðja ársfjórðungi og var um 28% eftir að hafa verið á bilinu 30%-33% frá byrjun árs 2020. Hækkandi húsnæðisverð, hærri vextir og þrengri lánþegaskilyrði eru farin að segja til sín, að því er kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Hlutfall fyrstu kaupenda náði sögulegu hámarki í fyrra eftir mikla fjölgun þeirra í Covid-faraldrinum, einkum vegna lágra vaxta.

Fyrstu kaupendum hefur hins vegar fækkað talsvert síðustu mánuði og voru þeir 1.010 talsins á þriðja ársfjórðungi. Fjöldi fyrstu kaupenda á einum fjórðungi hefur ekki verið minni frá fyrsta fjórðungi 2016.

Vegna vaxandi verðbólgu hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti 0,75% í 6% á einu og hálfu ári. Jafnframt þrengdi hann lánþegaskilyrði, m.a. með reglum um hámarks veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutföll lántaka sem tóku gildi í desember 2021.

„Eftir að reglurnar tóku gildi má sjá að meðalveðsetningarhlutfall, bæði fyrir alla og meðal fyrstu kaupenda, hefur farið lækkandi,“ segir í hagsjánni.

Í nýjasta riti Fjármálastöðugleika áætlar Seðlabankinn að breytingin hafi haft áhrif á 5-7% lánveitinga síðastliðins árs.