Þúsundir Argentínumanna streymdu út á götur Buenos Aires í fyrstu stóru mótmælaaðgerð gegn efnahagsáformum nýju argentínsku ríkisstjórnarinnar.

Javier Milei, nýi forseti landsins, hefur tilkynnt aðgerðir sem fela í sér niðurskurð útgjalda og harkalega gengisfellingu. Hann undirritaði einnig tilskipun um efnahagsumbætur sem mun binda enda á takmarkanir á útflutningi.

Mótmælin voru leidd af fulltrúum atvinnulausra og voru lögreglumenn sendir til að koma í veg fyrir að mótmælendur næðu að teppa umferð. Forsetinn, sem tók við embætti fyrir rúmlega tveimur vikum, hefur hótað hörðum aðgerðum gegn þeim sem reyna að koma í veg fyrir áform hans með mótmælum.

Á mánudaginn tilkynnti ríkisstjórnin meðal annars að fólk sem lokaði götum með mótmælum gæti misst rétt sinn á að fá ríkisbætur.

Forsetinn flutti nýlega ræðu þar sem hann fór ítarlega yfir sínar 300 ráðstafanir, sem hann kallar fyrsta skrefið í átt að endurreisn efnahagsins. Þau fela í sér einkavæðingu ríkisfyrirtækja og afnám hafta í námuvinnslu og öðrum atvinnugreinum. Hann sagðist einnig ætla að fella niður lög um leigu á fasteignum.

Í síðustu viku var gengi argentínska gjaldmiðilsins veikt um meira en 50% gagnvart Bandaríkjadal, úr 800 pesóa niður í rúmlega 391 pesóa. Efnahagsráðherra landsins tilkynnti einnig mikinn niðurskurð á opinberum útgjöldum, þar á meðal lækkun á eldsneytis- og flutningsstyrkjum.

Verðbólgan í Argentínu hefur hækkað um 150% á einu ári og glímir líka við lágan gjaldeyrisforða og miklar ríkisskuldir á meðan 40% þjóðarinnar býr undir fátæktarmörkum.