Sala hjá Iceland Seafood International jókst um 6,5% á þriðja ársfjórðungi og nam 102 milljónum evra sem samsvarar um 14,8 milljörðum króna á gengi dagsins.
Aðlöguð afkoma fyrir skatta var jákvæð um 2,5 milljónir evra á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 1,9 milljóna evra tap á sama tímabili í fyrra.
Nettótap samstæðunnar á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1,5 milljónum sem er töluverður viðsnúningur frá fyrra ári er félagið tapaði 20,7 milljónum evra.
Sala félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 314 milljónum evra sem er um 1,3% aukning milli ára.
„Fyrstu níu mánuðir ársins 2024 hafa staðfest að við erum á réttri leið. Helstu lykilmælikvarðar hafa farið í rétta átt. Þetta er jákvæð þróun við krefjandi markaðsaðstæður, svo sem hátt vaxtastig, verðbólgu, hátt hráefnisverð og lægri eftirspurn.
Við sjáum batamerki á mörkuðum, sérstaklega í Evrópu, og aukna eftirspurn í Bandaríkjunum, meðal annars vegna banns á innflutningi á rússneskum fiski. Við væntum þess að þorsksverð haldist hátt á næstu árum vegna kvótaskerðingar í Barentshafi. Laxaverð var hátt fyrri hluta ársins en hefur verið stöðugt síðan og gæti hækkað undir lok ársins,” segir Ægir Páll Friðbertsson, forstjóri félagsins í uppgjörinu.
Heildareignir félagsins í lok tímabilsins voru bókfærðar á 239,1 milljón evra sem er lækkun um 15,7 milljónir evra frá fyrra ári. Eiginfjárhlutfall var 29,9%.
Samkvæmt afkomuspá fyrir árið áætlar ISI að aðlöguð afkoma fyrir skatta á árinu verði á bilinu 5 til 7 milljónir evra.