Bróðurpartur ört vaxandi tekna tæknifyrirtækisins App Dynamic kemur erlendis frá, og mestur vöxtur nýverið hefur verið í Þýskalandi og Ástralíu.
Aðalvara fyrirtækisins, AirServer Connect, er orðin afskaplega vinsæl í Þýskalandi sem er að verða einn af stærstu mörkuðum þess að sögn Pratik Kumar stofnanda, eiganda og framkvæmdastjóra. Sem dæmi nefnir hann að borgaryfirvöld í Düsseldorf hafi nýlega fest kaup á 500 eintökum og verið sé að setja upp 900 stykki í sveitarfélaginu Alburg í Bæjarlandi.
Tækið – sem í stuttu máli er lítill kubbur sem tengdur er við sjónvarp eða annarskonar skjá og gerir notandanum kleift að streyma þangað hljóði og mynd þráðlaust úr öðru tæki á borð við síma eða fartölvu – er mikið notað í kennslustofum, en einnig í fundarherbergjum og á fleiri stöðum í ráðhúsum og öðrum opinberum byggingum.
„Eins og margir vita eru Þjóðverjar bara þannig úr garði gerðir að þeir leggjast í mikla rannsóknarvinnu áður en þeir taka ákvarðanir, sér í lagi í tæknimálum, og þeir hafa einfaldlega áttað sig á því að það er engin önnur vara á markaðnum sem getur gert allt það sem AirServer gerir. Að ná þýska markaðnum er að sama skapi mjög gott fyrir tæknifyrirtæki enda Þjóðverjinn stór í þróun og framleiðslu alls kyns tækni,“ segir Pratik, en Volkswagen bílaframleiðendasamsteypan er meðal þeirra sem App Dynamic hefur gert samning við um notkun á hugbúnaði sínum, sem finna má í aftursætisskjáum bíltegunda á borð við Audi, Porsche, Bentley og Lamborghini.
Starfsmannafjöldinn helmingast frá 2015
Þrátt fyrir mikla velgengni hefur Pratik lagt áherslu á að flýta sér hægt og koma vörunni og ímynd hennar og fyrirtækisins vel fyrir á sínum markaði. Starfsmannafjöldi fór hæst í 16 manns árið 2015, en er aðeins helmingur þess í dag.
„Að stækka umfang rekstrarins býr til óreiðu og ýmis vandamál. Við höfum frekar kosið að finna trausta og góða samstarfsaðila og leyfa þeim að sjá um að selja vöruna fyrir okkur og síðustu ár hefur okkur hefur tekist að byggja upp öflugt net endursöluaðila. Þeir kaupa tækin af okkur í magni á heildsöluverði og fá svo að halda mismuninum. Þannig getum við haldið áfram að einbeita okkur að því sem við gerum best.“
Nánar er rætt við Pratik í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.