Það hægðist veru­lega á hag­vexti hér­lendis á þriðja árs­fjórðungi en að mati greiningar­deildar Ís­lands­banka er sam­dráttur í inn­lendri eftir­spurn á þriðja árs­fjórðungi skýrt merki um við­snúning í hag­kerfinu.

„Hag­vöxtur á fjórðungnum var sá hægasti frá því snemma árs 2021 og var vöxturinn borinn uppi af hag­stæðu fram­lagi utan­ríkis­við­skipta. Slaknandi spenna í hag­kerfinu gæti dregið úr þörfinni fyrir frekari hækkun stýri­vaxta á komandi fjórðungum,“ segir í greiningunni sem Jón Bjarki Bents­son aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka skrifar.

Hag­vöxtur var 1,1% á þriðja árs­fjórðungi sam­kvæmt þjóð­hags­reikningum Hag­stofu.

Mun það vera all­nokkuð undir spá Seðla­bankans í ný­birtum Peninga­málum en þar spáði Seðla­bankinn 1,75% vexti á fjórðungnum.

„Í rauninni er það fyrst og fremst 3% sam­dráttur í inn­flutningi sem ýtir hag­vaxtar­tölunni yfir núllið þar sem þjóðar­út­gjöld, sem endur­spegla inn­lenda eftir­spurn, skruppu saman um 1,2% og út­flutningur jókst einungis um hálfa prósentu milli ára,“ segir í greiningu bankans.

„Vöxtur út­flutnings hefur vegið þungt í hag­vexti undan­farna fjórðunga. Hlutur hans var hins vegar í rýrara lagi á þriðja fjórðungi. Skýrist það af 3,7% sam­drætti í vöru­út­flutningi milli ára í magni mælt. Út­flutt þjónusta jókst hins vegar í magni mælt um 7,4% á fjórðungnum og á ferða­þjónustan þar drýgstan hlut að máli.”

„Vöxtur út­flutnings hefur vegið þungt í hag­vexti undan­farna fjórðunga. Hlutur hans var hins vegar í rýrara lagi á þriðja fjórðungi. Skýrist það af 3,7% sam­drætti í vöru­út­flutningi milli ára í magni mælt. Út­flutt þjónusta jókst hins vegar í magni mælt um 7,4% á fjórðungnum og á ferða­þjónustan þar drýgstan hlut að máli.”

Þá eru tals­verðar sveiflur í í fjár­muna­myndun milli fjórðunga í þjóð­hags­reikningum Hag­stofunnar undan­farið sem Jón Bjarki segir að oft vilji verða í litlu hag­kerfi með til­tölu­lega kvika hag­sveiflu.

Þannig mældist ríf­lega 4% sam­dráttur í fjár­festingu á þriðja árs­fjórðungi þar sem nærri 6% sam­dráttur í í­búða­fjár­festingu og 23% sam­dráttur í fjár­muna­myndun hins opin­bera vógu þyngra en 3% vöxtur í fjár­festingu at­vinnu­vega.

Fjár­muna­myndun skrapp saman um 1,3% á milli ára eftir tæp­lega 8% vöxt í fyrra og nærri 11% vöxt árið 2021.

Einka­neysla, einn veiga­mesti undir­liður þjóð­hags­reikninga, dróst saman á þriðja fjórðungi og mældist sam­drátturinn 1,7% í magni mælt.

Hefur sam­drátturinn ekki verið meiri frá loka­fjórðungi ársins 2020.

„Saman­dregið teikna hinar ný­birtu tölur Hag­stofunnar upp býsna skýra mynd af við­snúningi í ís­lensku hag­kerfi. Ekki einungis er að hægja veru­lega á hag­vexti heldur er rót hans í vaxandi mæli í utan­ríkis­við­skiptum fremur en inn­lendri eftir­spurn,“ skrifar Jón Bjarki.

„Með öðrum orðum er hag­kerfið að leita í átt að betra jafn­vægi eftir þenslu­skeið síðustu tveggja ára. Er það til merkis um að hag­stjórnar­við­brögð Seðla­bankans og stjórn­valda við þenslunni eru að segja til sín í æ ríkari mæli,“ bætir hann við.

Í þjóð­hags­spá Ís­lands­banka sem birtist í septem­ber­lok gerði bankinn ráð fyrir 2,2% hag­vexti á yfir­standandi ári.

„Tölurnar nú virðast ríma vel við þá spá og er það helst minni inn­flutnings­vöxtur sem gæti orðið til þess að hag­vöxtur reyndist meiri á árinu en við spáðum.“

„Að því gefnu að framan­greind þróun haldi á­fram gæti þörfin fyrir frekara peninga­legt að­hald Seðla­bankans orðið minni á komandi fjórðungum en ella. Í síðustu viku gaf peninga­stefnu­nefnd bankans í skyn að til­efni hefði verið til hækkunar vaxta ef ekki hefði komið til ó­vissa vegna jarð­hræringa á Reykja­nesi. Tölurnar nú benda til þess að það sé ekki að­eins undir yfir­borði jarðar sem slaknað hefur á spennu heldur séu um­svif ofan á jarð­skorpunni hér­lendis einnig að róast jafnt og þétt,“ skrifar Jón Bjarki að lokum.