Verkfall meðal flugumferðastjóra í Evrópu gæti verið á næsta leyti. Eitt af verkalýðsfélögum innan Eurocontrol, flugumferðastofnun Evrópu, hefur hótað verkfalli en ekki greint frá því hvenær það yrði.
Verkalýðsfélagið, Union Syndicale Bruxelles, tilkynnti sex mánaða tímabil þar sem aðgerðir gætu átt sér stað en Eurocontrol segir að samningaviðræður væru enn í fullum gangi og að verið sé að finna uppbyggilega lausn á málinu.
Flugumferðastjórarnir sem gætu verið á leið í verkfall sjá um fleiri en 10 milljón flug á ári og fyrir heimsfaraldur stýrðu þeir tæplega 37.000 flugferðum á dag. „Það er ómögulegt að spá fyrir um hugsanleg áhrif þar sem engin tilkynning hefur borist um verkfallsaðgerðir enn sem komið er,“ segir í tilkynningu frá Eurocontrol.
Síðasta sumar fengu farþegar á leið í frí frá breskum flugvöllum að kynnast truflunum þegar stór hluti starfsfólks á breskum flugvöllum, Heathrow þar með talið, fóru í verkfall og þurfti að seinka rúmlega þriðjungi allra flugferða.