Hvorki Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika né Agustín Carstens forstöðumaður Alþjóðagreiðslubankans (e. Bank for International Settlements) sjá fyrir sér að seðlabankarafeyrir – sem nú er til skoðunar hjá síðarnefndu stofnuninni sem nokkurskonar arftaki efnislega seðlabankafjárins; seðla og myntar – muni hafa teljandi áhrif á peningamálastefnu sem slíka.
Carstens bendir þó á að rafræna formið gæti hugsanlega haft óætlaðar afleiðingar við ákveðin skilyrði, en nefnir engin lönd sérstaklega.
„Peningamálastefna virkar á þann hátt sem við þekkjum undir eðlilegum kringumstæðum, og seðlabankafé á rafrænu formi, þ.e. seðlabankarafeyrir, ætti í sjálfu sér ekki að hafa áhrif þar á. Engu að síður er sá möguleiki fyrir hendi að gjaldmiðlum í litlum og opnum hagkerfum yrði skipt út fyrir sterkari gjaldmiðil,“ segir Carstens.
„Þegar allt kemur til alls er það ekki rafeyririnn sem er vandamálið í slíkum aðstæðum heldur gjaldmiðillinn sjálfur. Seðlabankarafeyrir gæti hins vegar orðið hvatinn að eða hraðað slíku ferli. Það er því afar mikilvægt þar sem hætta getur verið á því að fyrir hendi séu viðeigandi stjórntæki til að tryggja að svo fari ekki.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.