Ingólfur Bender aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær leggjast afar illa í samtökin en að hans mati er með hækkuninni verið að leggja í óþarflega mikinn kostnað fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu við að ná niður verðbólgunni.
„Við hefðum viljað sjá vexti óbreytta. Fyrir því eru mjög góð rök. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað vexti bankans mjög mikið á mjög stuttum tíma. Það hefði alveg verið lag að leyfa þeim hækkunum að hafa sín áhrif og sjá hversu mikið verðbólgan kæmi niður,“ segir Ingólfur.
Hann segir aðhald peningastefnunnar hafa aukist umtalsvert og raunstýrivextir séu orðnir jákvæðir. Þá verður að hafa í huga að það tekur tíma fyrir vaxtahækkanir að hafa áhrif á verðbólguna.
„Það sem maður sér í tölunum er að verðbólgan er búin að koma niður úr 10,2% í 7,6%. Síðan hafa verðbólguhorfur til skemmri tíma verið að batna líkt og kemur m. a. fram í nýrri verðbólguspá Seðlabankans. Einnig sést það í verðbólguvæntingum til skemmri tíma að þær hafa verið að koma niður,“ segir Ingólfur.
Umtalsverður samdráttur á íbuðamarkaði
„Það hefði kannski verið rétt að bíða eftir því að sjá hvort þessi lækkun verðbólgunnar raungerist,“ segir Ingólfur.
Hann hefur miklar áhyggjur af áhrifum hárra vaxta á iðnaðinn í landinu sem er um fjórðungur hagkerfisins.
„Það sem við erum að sjá í hagkerfinu eru merki um að það sé að hægja verulega á vextinum. Ekki síst að því sem víkur að okkur í iðnaðinum þar sem við höfum séð draga hratt úr vexti veltu, fjölda starfandi o. fl. þátta undanfarið. Áhrif hárra vaxta koma fram í fjárfestingum. Þar er að hægja verulega á og m.a. greinum við umtalsverðan samdrátt á íbúðamarkaði og þá sérstaklega á fyrstu stigum íbúðaframkvæmda,“ segir Ingólfur.
„Það er mjög alvarlegt að hér sé verið að hækka vexti á framkvæmdarlánum til íbúðaframkvæmda og bremsa þann markað á sama tíma og við erum með verulegan skort á íbúðum því fólksfjölgunin er svo mikil. Við sjáum fram á að þetta valdi vandræðum á næstu árum þegar það koma fáar íbúðir inn á markaðinn. Við erum að grafa holu sem við lendum í eftir fáein misseri þegar skortur nýrra íbúða fer enn og aftur að vera verulegt vandamál.“
Erum að fara í aðra hringekju
„Við viljum náttúrulega að hér sé byggt í takti við þarfir heimilanna í landinu en nú er verið að hlaða í annan skort,“ segir Ingólfur og bendir á fólksfjölgun sé umfram fjölgun íbúða en fjórir nýir íbúar í landinu voru um hverja nýja íbúð í fyrra og horfur á að hlutfallið verði viðlíka í ár. Í eðlilegu árferði eru 2-2,5 nýir íbúar um hverja nýja íbúð.
Húsnæðisliðurinn hefur verið að lækka í vísitölu neysluverðs og hefur það haft jákvæð áhrif. Með fækkun íbúða á markaði gæti það valdið því að húsnæðisliðurinn hækki aftur á næstu árum og valdi því verðbólguskoti eftir nokkur ár.
„Við erum með þessum vaxtahækkunum að fara í aðra hringekju á þeim markaði með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og vexti,“ segir Ingóflur.
Spurður um áhrifin til skemmri tíma og hvort samdráttur í framkvæmdum gæti valdið uppsögnum og auknu atvinnuleysi í iðngreinum, segir Ingólfur að það sé líklegt.
„Þetta getur alveg komið fram í því. Við sjáum samdrátt nú á fyrstu byggingarstigum íbúða sem hlýtur að fara út í allt ferlið á endanum svo dæmi sé tekið.”
Ingólfur bendir á að innflutt verðbólga sé að minnka og koma niður sem skiptir miklu máli fyrir Ísland. „Verðbólgan er að lækka jafnvel myndarlegra úti heldur en hér og gengi krónunnar hefur verið að styrkjast ofan á það.“
„Þetta virkar talsvert mikið í hagkerfi eins og okkar þar sem er verið að flytja inn mjög stóran hluta neyslukörfu almennings,“ segir Ingólfur.
Boltinn hjá vinnumarkaðinum og stjórnvöldum
Fram undan eru kjarasamningar og segir Ingólfur boltann vera hjá aðilum vinnumarkaðarins í vetur. „Boltinn er síðan líka hjá ríkisstjórninni sem er að fara að leggja fram fjárlagafrumvarp í byrjun þings í október,“ segir Ingólfur.
„Það er kannski það eina jákvæða í yfirlýsingu peningastefnunefndar að það séu ekki boðaðar með jafn afgerandi hætti og í þar síðustu yfirlýsingu nefndarinnar í maí sl. frekari hækkanir vaxta á næstunni. Vaxtahækkunartónninn er mildari þannig að kannski og vonandi er toppinum náð í þessum vaxtahækkunarferli sem staðið hefur nú í ríflega tvö ár,“ segir Ingólfur að lokum.