Ingólfur Bender aðal­hag­fræðingur Sam­taka iðnaðarins segir stýri­vaxta­hækkun Seðla­bankans í gær leggjast afar illa í sam­tökin en að hans mati er með hækkuninni verið að leggja í ó­þarf­lega mikinn kostnað fyrir fyrir­tækin og heimilin í landinu við að ná niður verð­bólgunni.

„Við hefðum viljað sjá vexti ó­breytta. Fyrir því eru mjög góð rök. Peninga­stefnu­nefnd Seðla­bankans hefur hækkað vexti bankans mjög mikið á mjög stuttum tíma. Það hefði alveg verið lag að leyfa þeim hækkunum að hafa sín á­hrif og sjá hversu mikið verð­bólgan kæmi niður,“ segir Ingólfur.

Hann segir að­hald peninga­stefnunnar hafa aukist um­tals­vert og raun­stýri­vextir séu orðnir já­kvæðir. Þá verður að hafa í huga að það tekur tíma fyrir vaxta­hækkanir að hafa á­hrif á verð­bólguna.

„Það sem maður sér í tölunum er að verð­bólgan er búin að koma niður úr 10,2% í 7,6%. Síðan hafa verð­bólgu­horfur til skemmri tíma verið að batna líkt og kemur m. a. fram í nýrri verð­bólgu­spá Seðla­bankans. Einnig sést það í verð­bólgu­væntingum til skemmri tíma að þær hafa verið að koma niður,“ segir Ingólfur.

Umtalsverður samdráttur á íbuðamarkaði

„Það hefði kannski verið rétt að bíða eftir því að sjá hvort þessi lækkun verð­bólgunnar raun­gerist,“ segir Ingólfur.

Hann hefur miklar á­hyggjur af á­hrifum hárra vaxta á iðnaðinn í landinu sem er um fjórðungur hag­kerfisins.

„Það sem við erum að sjá í hag­kerfinu eru merki um að það sé að hægja veru­lega á vextinum. Ekki síst að því sem víkur að okkur í iðnaðinum þar sem við höfum séð draga hratt úr vexti veltu, fjölda starfandi o. fl. þátta undan­farið. Á­hrif hárra vaxta koma fram í fjár­festingum. Þar er að hægja veru­lega á og m.a. greinum við um­tals­verðan sam­drátt á í­búða­markaði og þá sér­stak­lega á fyrstu stigum í­búða­fram­kvæmda,“ segir Ingólfur.

„Það er mjög al­var­legt að hér sé verið að hækka vexti á fram­kvæmdar­lánum til í­búða­fram­kvæmda og bremsa þann markað á sama tíma og við erum með veru­legan skort á í­búðum því fólks­fjölgunin er svo mikil. Við sjáum fram á að þetta valdi vand­ræðum á næstu árum þegar það koma fáar í­búðir inn á markaðinn. Við erum að grafa holu sem við lendum í eftir fá­ein misseri þegar skortur nýrra í­búða fer enn og aftur að vera veru­legt vanda­mál.“

Erum að fara í aðra hringekju

„Við viljum náttúru­lega að hér sé byggt í takti við þarfir heimilanna í landinu en nú er verið að hlaða í annan skort,“ segir Ingólfur og bendir á fólks­fjölgun sé um­fram fjölgun í­búða en fjórir nýir í­búar í landinu voru um hverja nýja íbúð í fyrra og horfur á að hlut­fallið verði við­líka í ár. Í eðli­legu ár­ferði eru 2-2,5 nýir í­búar um hverja nýja íbúð.

Hús­næðis­liðurinn hefur verið að lækka í vísi­tölu neyslu­verðs og hefur það haft já­kvæð á­hrif. Með fækkun í­búða á markaði gæti það valdið því að hús­næðis­liðurinn hækki aftur á næstu árum og valdi því verð­bólgu­skoti eftir nokkur ár.

„Við erum með þessum vaxta­hækkunum að fara í aðra hring­ekju á þeim markaði með til­heyrandi á­hrifum á verð­bólgu og vexti,“ segir Ingóflur.

Spurður um á­hrifin til skemmri tíma og hvort sam­dráttur í fram­kvæmdum gæti valdið upp­sögnum og auknu at­vinnu­leysi í iðn­greinum, segir Ingólfur að það sé lík­legt.

„Þetta getur alveg komið fram í því. Við sjáum sam­drátt nú á fyrstu byggingar­stigum í­búða sem hlýtur að fara út í allt ferlið á endanum svo dæmi sé tekið.”

Ingólfur bendir á að inn­flutt verð­bólga sé að minnka og koma niður sem skiptir miklu máli fyrir Ís­land. „Verð­bólgan er að lækka jafn­vel myndar­legra úti heldur en hér og gengi krónunnar hefur verið að styrkjast ofan á það.“

„Þetta virkar tals­vert mikið í hag­kerfi eins og okkar þar sem er verið að flytja inn mjög stóran hluta neyslu­körfu al­mennings,“ segir Ingólfur.

Boltinn hjá vinnu­markaðinum og stjórnvöldum

Fram undan eru kjara­samningar og segir Ingólfur boltann vera hjá aðilum vinnu­markaðarins í vetur. „Boltinn er síðan líka hjá ríkis­stjórninni sem er að fara að leggja fram fjár­laga­frum­varp í byrjun þings í októ­ber,“ segir Ingólfur.

„Það er kannski það eina já­kvæða í yfir­lýsingu peninga­stefnu­nefndar að það séu ekki boðaðar með jafn af­gerandi hætti og í þar síðustu yfir­lýsingu nefndarinnar í maí sl. frekari hækkanir vaxta á næstunni. Vaxta­hækkunar­tónninn er mildari þannig að kannski og vonandi er toppinum náð í þessum vaxta­hækkunar­ferli sem staðið hefur nú í ríf­lega tvö ár,“ segir Ingólfur að lokum.