Hagnaður sviss­neska bankans UBS á öðrum árs­fjórðungi nam 1,1 milljarði dala eða um 152 milljörðum ís­lenskra króna.

Mun það vera tölu­vert meira en greiningar­aðilar höfðu spáð. Sam­kvæmt könnun Bloom­berg meðal greiningar­fyrir­tækja var á­ætlaður hagnaður um 520 milljónir dala.

Sam­kvæmt Financial Times má rekja hagnaðar­aukann til betri sam­tvinnun UBS og Credit Suis­se. Um 18 mánuðir eru síðan UBS keypti Credit Suis­se á rúm­lega 3 milljarða Banda­ríkja­dali er síðar­nefndi bankinn var á barmi gjald­þrots.

UBS er hins vegar í hörðum deilum við sviss­nesk yfir­völd sem vilja m.a. hækka bindi­skylduna á sam­einaða bankann.

Sam­kvæmt greiningar­aðilum gæti UBS þurft að auka eigið fé sitt um allt að 25 milljarða dali eða um 3450 milljarða ís­lenskra króna til að mæta fyrir­huguðum reglu­breytingum yfir­valda.

Aðgerðirnar sem fjármálaráðherra Sviss, Karin Keller-Sutter, kynnti fyrst í apríl hafa aftrað gengi bankans í ár að sögn FT. Stjórnvöld höfðu hvatt UBS til að kaupa Credit Suisse en bankinn keypti keppinaut sinn á miklu afsláttarverði.

Nú er hins vegar ótti um að sameinaði bankinn sé of stór til að geta hrunið (e. Too big to fail) og vilja stjórnvöld því herða tökin.

Gengi UBS hefur þó hækkað um 4% í viðskiptum dagsins í Sviss eftir uppgjörið.