Apple hefur samið við hálfleiðaraframleiðandann Qualcomm um að útvega sér 5G-fjarskiptaörflögur fyrir iPhone-síma sína næstu þrjú árin.

Apple hefur unnið að því í þó nokkurn tíma að hanna sínar eigin fjarskiptaörflögur, en samningurinn við Qualcomm – sem hingað til hefur útvegað Apple og fleirum þær – er talinn til marks um að sú viðleitni hafi lítinn árangur borið.

Tæknirisinn keypti 2.200-manna snjalltækja-fjarskiptasvið örgjörvarisans Intel árið 2019 fyrir milljarð Bandaríkjadala í áðurnefndum tilgangi. Intel hafði þá að sama skapi reynt að veita Qualcomm samkeppni með hönnun eigin 5G-flaga, en ekki haft erindi sem erfiði og tapað á því um milljarði dala á hverju ári.