Starfsmenn Íslandsbanka gáfu almennum fjárfestum rangar upplýsingar um lágmarksupphæð til að taka þátt í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka, samkvæmt samkomulagi Íslandsbanka og FME.
Íslandsbanka átti að vera ljóst sem umsjónar- og söluaðili í útboðinu að bankinn átti að vera trúr skilmálum Bankasýslunnar og einungis átti að beina útboðinu til hæfra fjárfesta og að almennum fjárfestum stæði ekki til boða að taka þátt.
Gögn málsins sýna að þrátt fyrir þá vitneskju beindi Íslandsbanki útboðinu að 99 almennum fjárfestum í andstöðu við skýra skilmála Bankasýslunnar og samskipti Íslandsbanka við Bankasýsluna.
73 almennir fjárfestar tóku þátt
Við upphaf útboðs bankasýslunnar sendu starfsmenn Íslandsbanka tölvupóst til hóps viðskiptavina sem þeir töldu líklega til þátttöku í útboðinu. Af fyrirliggjandi gögnum, sem fjármálaeftirlitið aflaði undir rekstri málsins, beindi Íslandsbanki útboðinu til 99 almennra fjárfesta.
Þar af tóku 73 almennir fjárfestar þátt í útboðinu, 58 viðskiptavinir Eignastýringar Íslandsbanka auk 15 viðskiptavina sem tóku þátt í gegnum Fyrirtækjaráðgjöf eða Verðbréfamiðlun.
Fram hefur komið að Bankasýslan, allt frá minnisblaðinu dags. 20. janúar 2022, lagði upp með að útboðinu yrði eingöngu beint til hæfra fjárfesta og að engin lágmarksfjárhæð yrði sett fyrir þátttöku í útboðinu.
Hljóðrituð símtöl komu upp um starfsmenn
„Upplýsingar um söluaðferðina sem beita átti í útboðinu komu fram í ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra 18. mars 2022 og tilkynningu Bankasýslunnar sem birt var opinberlega hinn 22. mars 2022 kl. 16:11. Þá bera samskipti málsaðila við 75 Bankasýsluna með sér að málsaðili hafði allar upplýsingar um að skilmálar útboðsins yrðu með þeim hætti,“ segir í samkomulaginu.
Þrátt fyrir framangreint beindi Íslandsbanki útboðinu að 99 almennum fjárfestum og í níu tilfellum, þar sem hljóðrituð símtöl liggja fyrir, kemur fram í símtölum starfsmanna málsaðila við almenna fjárfesta að lágmarksfjárhæð í útboðinu væri 20 milljónir króna.
„Þær fullyrðingar voru rangar,“ segir í samkomulagi FME og Íslandsbanka.
„Í ljósi þess að símtalsupptökur liggja ekki fyrir nema að litlu leyti hjá málsaðila, er ekki hægt að segja til um í hve mörgum tilfellum starfsmenn málsaðila veittu rangar upplýsingar um að krafa væri um lágmarksfjárhæð í útboðinu,“ segir þar enn fremur.
„Með því að gera 99 almennum fjárfestum kleift að taka þátt í útboðinu er það mat fjármálaeftirlitsins að málsaðili, sem einn þriggja umsjónaraðila útboðsins, hafi ekki gætt hagsmuna Bankasýslunnar af því að farið yrði að skilmálum útboðsins. Þá ýtir það undir alvarleika háttseminnar að málsaðili fór ekki að skilmálum Bankasýslunnar og að forstöðumaður hjá málsaðila veitti viðskiptavinum rangar upplýsingar um skilmála útboðsins, en gera verður ríkar kröfur til þess að starfsmenn og stjórnendur verðbréfafyrirtækja þekki vel þær vörur og þjónustu sem boðin er hverju sinni,“ segir í samkomulagi FME og Íslandsbanka.