Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur kynnti á stjórnarfundi í dag tillögu um að fallið verði frá fyrri ákvörðun um að leita tilboða í Gagnaveitu Reykjavíkur. Í greinargerð með tillögunni segir að núverandi meirihluti sé andvígur sölu fyrirtækisins og nauðsynlegt sé að taka ákvörðun um að hætta undirbúningi sölu til þess að eyða óvissu jafnt meðal starfsmanna, viðskiptavina sem og þjónustuaðila.
Í fréttatilkynningu vegna tillögunar er haft eftir Bryndísi Hlöðversdóttur stjórnarformanns Orkuveitunnar: „Það er skoðun mín að starfsemi Gagnaveitunnar sé grunnþjónusta og falli afar vel að annarri veitustarfsemi Orkuveitunnar. Áætlanir sýna að rekstarhorfur eru góðar og það mat sem gert var á verðmæti fyrirtækisins í vor gefur til kynna að verðmætið aukist til muna á næstu árum og verulega umfram þá fjárfestingu sem framundan er,“ segir Bryndís.
Á fundi stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur þann 4. júní sl. var samþykkt að fela fyrirtækjasviði Glitnis hf. að verðmeta Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og leita eftir tilboðum í hlutafé félagsins, allt eða meirihluta þess. Verðmat var fengið frá Glitni og Landsbanka Íslands en sölumeðferð hefur ekki hafist.
Gagnaveita Reykjavíkur ehf. er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur sem sér um lagningu og rekstur ljósleiðaranets í fjölda sveitarfélaga. Gagnaveitan var stofnuð sem svið innan Orkuveitu Reykjavíkur 1. janúar 2005 en var breytt í hlutafélag 1. janúar 2007. Viðskiptavinir Gagnaveitunnar eru bæði fyrirtæki og heimili á veitusvæðum Orkuveitunnar.