Ari Skúlason, hluthafi í Landsbankanum og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bankamanna, tók til máls á aðalfundi Landsbankans síðasta föstudag og gagnrýndi stjórnendur bankans harðlega.
Ari sagðist telja þá hafa brotið skyldur sínar gagnvart Lífeyrissjóði bankamanna með alvarlegum hætti og sagði hann það vera skyldu sína sem stjórnarmaður lífeyrissjóðsins að upplýsa um þetta á fundinum.
Hann vakti athygli fundarmanna á því að á síðustu mánuðum hafi stjórnendur Landsbankans leyft flutning fleiri tuga starfsmanna sinna úr Lífeyrissjóði bankamanna yfir í Íslenska lífeyrissjóðinn, sem rekinn er af bankanum „algjörlega í trássi við samþykktir sjóðsins og víðtækar venjur á íslenskum vinnumarkaði.”
Samkvæmt fundargerð bankans vísaði hann í 1. gr. starfskjarastefnu bankans máli sínu til stuðnings en þar segir m. a. að traust ríki um stjórn og starfsemi bankans, að bankinn sé í forystu á sviði góðra stjórnarhátta og sjálfbærni og að hagsmuna hans sé gætt í hvívetna, sem á ekki síst við um orðspor og trúverðugleika.
Óumdeilt að öllu starfsfólki bankans væri beint í sjóðinn
Ari sagði að með þessu framferði hafi stjórnendur bankans ekki starfað í anda starfskjarastefnunnar, þar sem þeir þverbrjóti samþykktir lífeyrissjóðsins og allar reglur, venjur og hefðir um lífeyrismál á íslenskum vinnumarkaði.
Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, tók til máls á fundinum og áréttaði að Landsbankinn væri stofnaðili að Lífeyrissjóði bankamanna og í samþykktum sjóðsins komi fram að bankinn skuli beina starfsfólki sínu til lífeyrissjóðsins.
Lilja benti á að þessi mál hafi verið rædd frá árinu 2018 við lífeyrissjóðinn og lífeyrismál starfsfólks séu mikilvægt réttindamál fyrir starfsfólk. Bankinn hafi hins vegar ekki aðgang að ársfundi sjóðsins, en um þetta er fjallað í samþykktum sjóðsins.
Lilja sagði jafnframt að það væri óumdeilt að öllu starfsfólki bankans væri beint í sjóðinn, en framkvæmdin meðal annarra aðildarfyrirtækja Lífeyrissjóðs bankamanna sé aftur á móti mjög misjöfn.
Starfsmenn telja skylduaðildina lögbrot
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá árið 2022 hefur óánægja ríkt meðal hóps starfsmanna Landsbankans um skylduaðild í Lífeyrissjóð bankamanna.
Meðal áhyggjuefna starfsmanna voru fækkandi sjóðfélagar og neikvæð tryggingafræðileg staða á árunum á undan. Því var einnig velt upp hvort skylduaðildin kynni að stangast á við lög.
Aðildarfyrirtæki að Lífeyrissjóði bankamanna samkvæmt samþykktum sjóðsins eru Landsbankinn, Seðlabanki Íslands, Reiknistofa bankanna, og Valitor, dótturfélag Arion banka.
Stór meirihluti landsmanna greiðir í lífeyrissjóði samkvæmt skylduaðild. Hins vegar er skylduaðild að Lífeyrissjóði bankamanna frábrugðin öðrum tilfellum að því leyti að ekki er kveðið á um hana í kjarasamningum eða lögum heldur í ráðningarsamningum aðildarfyrirtækja.
Því geta starfsmenn annarra banka, þar á meðal Arion og Íslandsbanka, með kjarasamning hjá Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) valið sér lífeyrissjóð. Umræddir starfsmenn Landsbankans telja að þetta kunni að stangast á við lög um lífeyrissjóði.