Whitney Wolfe Herd, stofnandi og forstjóri stefnumótaforritsins Bumble, gagnrýndi starfsfólk sitt fyrir að missa stjórn á skapi sínu eftir að hún tilkynnti um að fyrirtækið hyggist fækka 160 stöðugildum í London.
Hún sagði þörf á róttækum hagræðingaraðgerðum og bætti við að „stefnumótaforrit virðast tilheyra liðinni tíð“, samkvæmt Financial Times.
Wolfe Herd, sem sneri aftur sem forstjóri Bumble í mars síðastliðnum, lét ofangreind ummæli falla á sama tíma og hún tilkynnti um að skrifstofan í London yrði fyrir mestum áhrifum af fyrirhugaðri 240 manna hópuppsögn félagsins, sem samsvarar 30% af stöðugildum félagsins á heimsvísu.
Samkvæmt heimildarmönnum FT sagði Wolfe Herd á fjarfundi með starfsmönnum að hún óttist að Bumble, sem á einnig stefnumótaforritið Badoo, gæti þurft að hætta starfsemi á næsta ári ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða.
Wolfe Herd sagði að meginþungi starfseminnar verði flutt til Bandaríkjanna þar sem hæfasta vinnuaflið (e. talent pool) sé að finna þar. „London er ekki fyrsti kosturinn, það er bara staðreyndin.“
Um er að ræða mikla stefnubreytingu innan félagsins en 70% starfsmanna vinnur á skrifstofum þess í Bretlandi.
Heimildarmenn segja að Wolfe Herd hafi brugðist illa við því þegar hópur starfsmanna setti „þumal niður“ ritmynd (e. emoji) í spjallkerfi fjarfundaforritsins.
„Ég sé mikið af ritmyndum um að fólk sé að fríka út, þið þurfið að róa ykkur,“ er haft eftir henni. „Það er verið að taka orð mín úr samhengi. Mér líkar vel við London og tel satt best að segja að það sé verið að gera of mikið úr þessu. Það þurfa allir að bregðast við þessu eins og fullorðnir einstaklingar.“
Wolfe Herd gaf til kynna að allt starfsfólk ætti að taka sér frí út vikuna eftir fundinn í gær.
Markaðsvirði Bubmle, sem er skráð á Nasdaq markaðinn í Bandaríkjunum, hefur lækkað um 30% á síðustu tólf mánuðum og er komið undir 700 milljónir dala. Til samanburðar nam virði félagsins 13 milljarða dala þegar félagið var skráð á markað árið 2021.