Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýtur stuðnings 50% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins til formennsku í flokknum samkvæmt könnun Gallup sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið.
Stuðningur við Guðrúnu Hafsteinsdóttur mælist 48% en 2% vilja sjá einhvern annan.
Þegar aldur stuðningsmanna er skoðaður sést að Áslaug hefur miklu meira fylgi í yngri aldurshópum. Guðrún nýtur hins vegar mun meiri stuðnings í eldri aldurshópum, sérstaklega meðal 70 ára og eldri.
Spurt var: Tveir frambjóðendur hafa gefið kost á sér til formanns Sjálfstæðisflokksins. Hvaða einstakling myndir þú vilja sjá sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins?
Kosið verður um nýjan formann Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem fer fram um næstu helgi. Kosningin til formanns hefst kl. 11.30 á sunnudag.
Nánar verður fjallað um könnunina á morgun á vb.is, vef Viðskiptablaðsins.
Könnunin var gerð fyrir Viðskiptablaðið dagana 16. til 25. febrúar. Könnunin var netkönnun, úrtakið 3.758, fjöldi svarenda 1.864 og svarhlutfall 49,6%.