Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Framsóknarflokks og Pírata tapar verulegu fylgi og er staða þeirra tveggja síðastnefndu slæm. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar Gallup um fylgi flokkanna í borginni sem unnin er fyrir Viðskiptablaðið.

Píratar missa tvo borgarfulltrúa samkvæmt könnunni en í dag eru þeir með þrjá. Fylgi flokksins hrynur frá könnun í október 2024.

Framsóknarflokkurinn á í vök að verjast samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar en Sjálfstæðisflokkurinn er á siglingu.

Vinstri græn auka fylgi sitt töluvert milli kannana. Í október mældist flokkurinn með 1,9% fylgi en í nýju könnunni er fylgið 4%, sem er á pari við það sem flokkurinn fékk í kosningunum 2022.

Fylgi Miðflokksins dalar milli kannanna. Í októberkönnuninni mældist flokkurinn með 8,5% fylgi en í nýju könnunni er fylgið 6,6%.

Taka ber fram að Miðflokkurinn fékk einungis 2,4% atkvæða í kosningunum 2022 og í samanburði við það er flokkurinn að bæta verulega við sig.

Fjallað verður ítarlega um könnun Gallup í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur munu geta lesið um málið þegar blaðið verður birt á vb.is klukkan 19.30 í kvöld.