Ný könnun Gallup á fylgi frambjóðenda í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins sýnir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýtur mun meiri stuðnings meðal yngri kjósenda, sérstaklega á aldrinum 18 til 49 ára, en um 57% þeirra myndu kjósa Áslaugu Örnu á meðan aðeins 35% Guðrúnu Hafsteinsdóttur.

Í könnuninni var spurt: „Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram dagana 28. febrúar - 2. mars 2025. Tveir frambjóðendur hafa gefið kost á sér til formanns Sjálfstæðisflokksins. Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta formann?“

Niðurstöðurnar sýna skýran aldursskiptan stuðning.

Á meðal kjósenda á aldrinum 18 til 29 ára vilja 67% sjá Áslaugu Örnu sem formann flokksins, en aðeins 26% Guðrúnu Hafsteinsdóttur. Um 7% svarenda sögðust vilja kjósa einhvern annan.

Í aldurshópnum 30 til 39 ára styðja 53% Áslaugu Örnu en 41% Guðrúnu.

Í aldurshópnum 40 til 49 ára heldur Áslaug áfram forystu með 48% fylgi á móti 39% Guðrúnar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt erfitt með að höfða til þessa hóps síðustu ár, en niðurstöðurnar gefa til kynna að Áslaug Arna njóti betra gengis meðal fjölskyldufólks undir fimmtugu.

Ef aldurshóparnir eru skoðaðir í stærra mengi má sjá að meðal kjósenda á aldrinum 18 til 39 ára eru skoðaðir styðja um 61% Áslaugu Örnu og aðeins 33% Guðrúnu.

Ef heildarmengið er skoðað þá segjast um 57% allra undir fimmtugu að þeir myndu kjósa Áslaugu Örnu á meðan aðeins 35% styðja Guðrúnu.

Guðrún Hafsteinsdóttir nýtur mun meiri stuðnings meðal eldri borgara. Um 74% þeirra sem eru 70 ára og eldri vilja hana sem næsta formann flokksins en aðeins 25% Áslaugu Örnu.

Samfylkingarmenn hlynntari Guðrúnu

Stuðningur við frambjóðendurna skiptist einnig eftir því hvaða flokk fólk segist ætla að kjósa í næstu Alþingiskosningum.

Meðal kjósenda Samfylkingarinnar vilja 50% Guðrúnu sem formann Sjálfstæðisflokksins, en 35% Áslaugu Örnu.

Hins vegar, meðal þeirra sem segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, leiðir Áslaug Arna með 50% fylgi á móti 48% Guðrúnar. Um 2% myndu kjósa annan.

Könnunin var framkvæmd af Gallup dagana 16. til 25. febrúar 2025 með það markmið að kanna hvaða frambjóðandi til formennsku í Sjálfstæðisflokknum væri líklegastur til að auka fylgi flokksins. Rannsóknin var unnin með netkönnun og byggði á handahófsvali 3.758 þátttakenda úr Viðhorfahópi Gallup, sem samanstendur af einstaklingum 18 ára og eldri af öllu landinu.

Af þeim sem fengu könnunina svöruðu 1.864 spurningunni hér að ofan, sem samsvarar 49,6% þátttökuhlutfalli.