Þrír ráðherrar í fráfarandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eru fallnir af Alþingi væri kosið nú samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var á miðvikudag. Mælingin fór fram í mars.
Að auki er einn ráðherra mjög nærri því að falla af þingi samkvæmt könnuninni.
Tólf ráðherrar eru í ríkisstjórninni er því þingsæti þriðjungs ráðherranna í hættu. Enginn ráðherra Sjálfstæðisflokksins er nálægt því að missa þingsæti sitt en flokkurinn tapar minnstu fylgi stjórnarflokkanna þriggja frá alþingiskosningunum haustið 2021 samkvæmt könnuninni.
Samfylkingin hefur ekki mælst hærri frá kosningunum í september 2021 og fengi 30,9% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mældist jafn lágur í janúar og fengi 18,2%.
Miðflokkurinn fengi 12,9%, Píratar 7,8%, Framsóknarflokkur 7,3%, Viðreisn 7,1%, Flokkur fólksins 6,2%, Vinstri grænir 5,6% og Sósíalistaflokkurinn 3,9%.
Framsóknarflokkur missir 9 þingmenn
Framsóknarflokkurinn myndi samkvæmt könnuninni missa 9 þingmenn, fá 4 þingmenn en hefur í dag 13. Flokkurinn hefur misst mest fylgi allra stjórnmálaflokkanna frá kosningunum 2021.
Vinstri grænir myndu missa 5 þingsæti. Flokkurinn er með 8 þingsæti en fengi nú 3 þingmenn.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 16 þingmenn í síðustu kosningum en fengi 12 nú. Flokkurinn er með 17 þingmenn í dag en einn þingmaður Miðflokksins yfirgaf flokkinn stuttu eftir kosningar og gekk til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins.
Þrír ráðherrar fallnir af þingi og einn í mikilli hættu
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Vinstri grænna eru öll fallin af þingi samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup.

Að auki er Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mjög tæp að ná inn á þing samkvæmt könnuninni.
Framsóknarmennirnir Lilja Dögg og Ásmundur Einar hafa ekki mælst með nægjanlegt fylgi frá áramótum til að ná sæti á Alþingi samkvæmt könnunum Gallup .
Framsóknarflokkurinn í verstu stöðunni af stjórnarflokkunum þremur
Staða Framsóknarflokksins samkvæmt könnun Gallup er verst stjórnarflokkanna.
Flokkurinn hefur tapað 69% þingmanna sinna. Vinstri græn tapar 62,5% þingstyrksins og Sjálfstæðisflokkurinn fjórðungi þingmanna sinna.