Þrír ráðherrar í fráfarandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur eru fallnir af Alþingi væri kosið nú samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var á miðvikudag. Mælingin fór fram í mars.

Að auki er einn ráðherra mjög nærri því að falla af þingi samkvæmt könnuninni.

Tólf ráðherrar eru í ríkisstjórninni er því þingsæti þriðjungs ráðherranna í hættu. Enginn ráðherra Sjálfstæðisflokksins er nálægt því að missa þingsæti sitt en flokkurinn tapar minnstu fylgi stjórnarflokkanna þriggja frá alþingiskosningunum haustið 2021 samkvæmt könnuninni.

Samfylkingin hefur ekki mælst hærri frá kosningunum í september 2021 og fengi 30,9% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mældist jafn lágur í janúar og fengi 18,2%.

Miðflokkurinn fengi 12,9%, Píratar 7,8%, Framsóknarflokkur 7,3%, Viðreisn 7,1%, Flokkur fólksins 6,2%, Vinstri grænir 5,6% og Sósíalistaflokkurinn 3,9%.

Framsóknarflokkur missir 9 þingmenn

Framsóknarflokkurinn myndi samkvæmt könnuninni missa 9 þingmenn, fá 4 þingmenn en hefur í dag 13. Flokkurinn hefur misst mest fylgi allra stjórnmálaflokkanna frá kosningunum 2021.

Vinstri grænir myndu missa 5 þingsæti. Flokkurinn er með 8 þingsæti en fengi nú 3 þingmenn.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 16 þingmenn í síðustu kosningum en fengi 12 nú. Flokkurinn er með 17 þingmenn í dag en einn þingmaður Miðflokksins yfirgaf flokkinn stuttu eftir kosningar og gekk til liðs við þingflokk Sjálfstæðisflokksins.

Þrír ráðherrar fallnir af þingi og einn í mikilli hættu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og formaður Vinstri grænna eru öll fallin af þingi samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup.

Lilja Dögg, Guðmundur Ingi og Ásmundur Einar er fallin af þingi ef kosið væri nú samkvæmt Gallup. Myndin er samsett.

Að auki er Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mjög tæp að ná inn á þing samkvæmt könnuninni.

Framsóknarmennirnir Lilja Dögg og Ásmundur Einar hafa ekki mælst með nægjanlegt fylgi frá áramótum til að ná sæti á Alþingi samkvæmt könnunum Gallup .

Framsóknarflokkurinn í verstu stöðunni af stjórnarflokkunum þremur

Staða Framsóknarflokksins samkvæmt könnun Gallup er verst stjórnarflokkanna.

Flokkurinn hefur tapað 69% þingmanna sinna. Vinstri græn tapar 62,5% þingstyrksins og Sjálfstæðisflokkurinn fjórðungi þingmanna sinna.