Hagar gengu í október frá samkomulagi við eigendur SMS um kaup á öllu hlutafé færeyska verslunarfélagsins og var endanlegur kaupsamningur undirritaður í lok nóvember. SMS rekur meðal annars átta Bónus verslanir í Færeyjum.
Bónus opnaði sínar fyrstu tvær verslanir í Færeyjum árið 1993, undir öðru nafni, í samvinnu við Jákup Jacobsen, eiganda Rúmfatalagersins. Árið 1999 keypti fjárfestingarfélagið Baugur helmingshlut í SMS og samhliða því var rekstur SMS og Føris, rekstrarfélag Bónusverslananna í Færeyjum sameinaður. Helmingshlutur Baugs í SMS rann inn í Haga árið 2007.
Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónuss, keypti helmingshlut Haga í SMS árið 2010 í kjölfar þess að Arion banki hafði eignast 95,7% hlut í Högum árið áður. Jóhannes seldi hlut sinn í SMS að lokum árið 2012 og lauk þar með aðkomu Íslendinga að eignarhaldi færeyska verslunarfélagsins.
Þrátt fyrir að reka áfram átta verslanir undir merkjum Bónus hefur ekki verið samband á milli SMS og Haga að svo neinu nemi að sögn Finns.
„Það má kannski sjá best á því að grísinn sem Bónus í Færeyjum notar er þessi sem köllum Gamli grísinn, á meðan Bónus á Íslandi er með aðeins nýrri útgáfu,“ segir Finnur. Hann bætir við að fyrirtækin eigi það sameiginlegt að vera með þennan glaðlega og sérlega sparsama grís í forgrunni enda leggi þau bæði sig fram um að bjóða viðskiptavinum ávallt upp á hagkvæmasta matvörukostinn um allt land.
„Það náttúrulega passar enn þá mjög vel saman. Þetta eru átta verslanir úti í Færeyjum og við erum með 33 á Íslandi. Það eru því mikil tækifæri í að nýta Bónus vörumerkið og vörurnar sem við höfum þróað fyrir íslenska markaðinn í auknum mæli í Færeyjum.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um kaup Haga á SMS í Viðskiptablaði vikunnar.