Töluverðar sviptingar eru að eiga sér stað í matarvenjum Bandaríkjamanna og neytendur eru ekki jafn sólgnir í smákökur og snakk eins og áður.
Snakk og annað nammi, sem fyrir stuttu var mest vaxandi vöruflokkurinn meðal pakkaðra matvara, er að missa dampinn. Haldi þessi þróun áfram gæti hún gefið til kynna grundvallarbreytingu á matarvenjum Bandaríkjamanna og um leið skapað vandamál fyrir matvælarisa sem hafa á síðasta áratugnum keypt upp lúxus snakkfyrirtæki í gríð og erg.
Þó er enn of snemmt að segja til um hvort þetta sé tímabundið eða varanlegt bakslag, hugsanlega tengt aukinni notkun á lyfjum til þyngdartaps og hollara mataræði.
Sölutölur snarlrisa benda þó til breyttrar neytendahegðunar. Sala Frito-Lay, sem er í eigu PepsiCo og er þekktast fyrir framleiðslu á hinum vinsælu Doritos og Lay’s kartöfluflögum, dróst til að mynda saman á milli áranna 2023 og 2024, úr 24,91 milljörðum dala í 24,76 milljarða. Var þetta í fyrsta sinn frá fjármálakreppunni árið 2008 sem sala félagsins dregst saman á milli ára.
Þá lækkaði Campbell's söluspá sína fyrir þetta ár fyrr í þessum mánuði og vísaði til veikleika í sætindahluta félagsins, sem inniheldur vinsæl vörumerki eins og Pepperidge Farm smákökur og Goldfish kex.