Hugbúnaðarfyrirtækið Gangverk, sem sérhæfir sig í stafrænum lausnum fyrir alþjóðleg fyrirtæki, hefur gengið frá kaupum á Zaelot, hugbúnaðarfyrirtæki í Úrúgvæ með starfsemi í 15 löndum.
Með samruna þessara fyrirtækja kemur starfsmannafjöldi Gangverks til með að tvöfaldast.
„Kaupin á Zaelot gera okkur kleift að auka og bæta þjónustuframboð til viðskiptavina. Sameinaðir kraftar og skipulag nýs félags mun auka samkeppnishæfni okkar og gera okkur mögulegt að takast á við enn stærri og viðameiri, sérstaklega á innleiðingu Salesforce, CRM kerf og markaðstæknilausna,” segir Atli Þorbjörnsson, forstjóri Gangverks.
Zaelot var stofnað árið 2020 en fyrirtækið hefur síðan þá vaxið án utanaðkomandi fjárfestinga. Zaelot sérhæfir sig í þjónustu við stærri fyrirtæki og starfar nú í 15 löndum og er með yfir 90 starfsmenn. Í samanburði starfa rúmlega hundrað manns hjá Gangverk.
„Það stóð aldrei til að selja fyrirtækið, en þegar við áttuðum okkur á möguleikunum sem opnast með sameiningu við Gangverk, var ekki aftur snúið. Við erum að ganga inn í alþjóðafyrirtæki með öfluga starfsemi í þremur heimsálfum og ég hef fulla trú á að sameiningin muni skila mun meiri árangri en við hefðum náð í sitt hvoru lagi,” segir Jeff Lombard, forstjóri Zaelot.