Seinnipart 2024 var fyrirtækið Garden, sem var stofnað og stýrt af Íslendingum og að hluta til fjármagnað af Íslendingum, selt til tæknifyrirtækisins Incredibuild fyrir 65 milljónir dala, eða um 8,5-9 milljarða króna.

Greint er frá sölunni og kaupverðinu á vefnum Northstack í dag.

Garden var stofnað í Berlín árið 2018 af þremur Íslendingum en markmiðið var að búa til hugbúnað sem gæti auðveldað öðrum að byggja eigin hugbúnað.

Stofnendur voru þeir Jón Eðvald, Eyþór Magnússon og Þórarinn Sigurðsson.

Í frétt Northstack segir að Jón Eðvald var einn stofnenda Clara, sem var selt til Jive árið 2013 fyrir milljarð.

Þórarinn Sigurðsson starfaði hjá Clara eitt sumar, og stofnaði síðar Admittor, en þar starfaði síðar meir fyrrnefndur Eyþór Magnússon.

Viðskiptablaðið fjallaði um Garden árið 2022 en þá hafði fyrirtækið safnað 16 milljónum dala, eða um tveimur milljörðum króna á þáverandi gengi, í hlutafé í svokallaðri A fjármögnunarumferð sem leidd var af 468 Capital og Sorenson Ventures.

Íslenski vísisjóðurinn Crowberry Capital leiddi fjármögnunina en Davíð Helgason hafði fjárfest í félaginu í fyrri fjármögnunarlotum.

Kaupandi Garden, Incredibuild, er 130 manna fyrirtæki með útibú í fimm löndum en með kaupunum bætist Berlín við sem starfsstöð.