Fyrrverandi stjórnandi hjá bandaríska fjártæknifyrirtækinu Better, sem Novator fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar er meðal lykilfjárfesta í, hefur fullyrt í málssókn að fyrirtækið hafi villt um fyrir fjárfestum í skráningargögnum og fjárfestakynningum sem lagðar voru fram fyrir fyrirhugaða skráningu félagsins á markað. Til sendur að Better sameinist sérhæfða yfirtökufélaginu (e.SPAC) Aurora Acquisition Corp., sem Novator leiðir og Björgólfur Thor gegnir stjórnarformennsku hjá. Wall Street Journal greinir frá málinu.
Sarah Pierce, sem gegndi áður stöðu forstöðumanns sölu og rekstrar (e. VP of sales and operations) hjá Better, heldur því fram í lögsókninni að forstjórinn Vishal Garg og fyrirtækið hafi gefið villandi mynd af rekstri og horfum Better til að tryggja að fjárfestar myndu ekki hörfa frá félaginu fyrir skráninguna. Samrunanum hefur verið frestað um nokkra mánuði og fjármögnun félagsins hefur tekið breytingum. Félögin greindu frá samkomulagi um samrunann í maí 2021.
Sjá einnig: Risauppsagnir hjá Better
Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um Better í síðasta mánuði. Fyrirtækið sagði upp meira en helmingi af starfsmönnum sínum, eða yfir 5 þúsund manns, á fimm mánaða tímabili eftir mikla rekstrarerfiðleika. Better náði heimsathygli í lok síðasta árs þegar Garg sagði upp 900 starfsmönnum á einu bretti á Zoom fundi.
Fyrirtækið, sem sérhæfir sig í stafrænum lausnum tengdum húsnæðislánum, tapaði um 270 milljónum dala, eða um 35 milljörðum króna, á síðasta ári. Samkvæmt málsgögnum sagði Garg stjórninni og fjárfestum að fyrirtækið yrði arðbært aftur fyrir lok fyrsta ársfjórðungs 2022. Pierce segir að rekstrarteymið sitt ásamt fjármáladeild fyrirtækisins hafi borið upp sviðsmyndir fyrir Garg sem sýndu að Better gæti ekki náð jafnvægi í rekstri fyrr en á seinni helmingi þessa árs hið fyrsta.
„Við höfum farið yfir fullyrðingarnar og teljum að þær eigi ekki við rök að styðjast,“ segir Better í tilkynningu. „Fyrirtækið hefur fulla trú á okkar fjármálastöðu og reikningsskilum, og við munum verjast þessari málssókn af krafti.“
Hafði ekki áhyggjur af vaxtahækkunum
Í umfjöllun WSJ segir að Better hafi verið einn af helstu sigurvegurum á bandaríska húsnæðismarkaðnum, einkum vegna hækkandi húsnæðisverðs og sögulega lágra vaxta í faraldrinum. Hækkandi vextir og minni umsvif í endurfjármögnun ásamt neikvæðri athygli í kjölfar fjöldauppsagnanna hafa hins vegar gert fyrirtækinu erfitt fyrir.
Í málssókninni er haldið því fram að hinn umdeildi forstjóri Garg hafi sagt stjórnendum fyrirtækisins að þeir þyrftu ekki að óttast vaxtahækkanir þar sem Joe Biden Bandaríkjaforseti myndi sýkjast af Covid-19 veirunni og deyja. Aðrir stjórnendur Better segjast einnig muna eftir ummælunum.
Sjá einnig: Hlutur Sigurgeirs milljarða virði
Í skráningargögnum fyrir samrunann áætlaði Better að 30% af lánum fyrirtækisins hafi verið veitt til viðskiptavina sem leituðu beint til vefsíðunnar fremur en að hafa verið beint áfram af stafrænum markaðstólum sem greitt var fyrir. Hlutfallið þótti gott í samanburði við samkeppniaðila. Í lögsókninni heldur Pierce því fram að hlutfallið hafi ekki verið hærra en 12% og fyrirtækið hafi því ýkt styrk vörumerkisins. Hún segist hafa komið áhyggjum sínum um málið á framfæri áður en skráningarlýsingin var birt.
Pierce heldur því fram að henni hafi verið ýtt út úr fyrirtækinu í febrúar eftir að hún kom málinu á framfæri við stjórnendateymi félagins. Í málssókninni er haldið því fram að hegðun Better í hennar garð hafi falið í sér ólögmætar hefndaraðgerðir og ærumeiðingar ásamt því að fyrirtækið hafi með ásettu ráði valdið henni tilfinningalegri vanlíðan.