Alda hugbúnaður hefur verið valinn á lista hins alþjóðlega ráðgjafar- og greiningarfyrirtækisins Gartner yfir leiðandi tæknilausnir í fjölbreytileika og inngildingu (e. Diversity and Inclusion). Einungis fimm aðrar lausnir eru nefndar í sama flokki varðandi mælingar- og markmiðasetningu.

Hugbúnaðurinn, sem þróaður var á Íslandi, hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að mæla inngildingu á sínum vinnustað, býður upp á leikjavædda örfræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur ásamt markmiðasetningu, mælikvörðum og aðgerðaráætlunum sérsniðnum af gervigreind.

„Þetta er virkilega mikilvæg viðurkenning en meðmæli frá Gartner breyta algerlega samkeppnisstöðu okkar alþjóðlega. Við erum afar stolt af því að geta boðið upp á tæknilausn sem hefur slíka sérstöðu á alþjóðlegum vettvangi,” segir Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, framkvæmdastjóri og stofnandi Öldu.

Alda hugbúnaður var fyrst þróaður undir formerkjum nýsköpunarfyrirtækisins Empower. Árið 2022 tryggði fyrirtækið 300 milljón króna fjármögnun frá Frumtaki og Tennin ásamt 50 milljón króna fjármögnun frá Tækniþróunarsjóði.

Hugbúnaðurinn var settur í loftið ári síðar og nafni fyrirtækisins þá formlega breytt. Hjá Öldu starfa 13 sérfræðingar í hugbúnaðarþróun, efnissköpun, jafnréttis- og fjölbreytileikafræðum, stjórnun, viðskiptaþróun- og markaðsmálum.