Verð á gasi í Evrópu er komið undir 50 evrur á megavattstund í fyrsta sinn í nærri 18 mánuði. Verðið hefur fallið um tæplega 85% frá því að það fór yfir 300 evrur í ágúst 2022 en gasverð hækkaði verulega í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.
Verð á framvirkum TTF gassamningum féll um nærri 5% í dag og fór niður í 49 evrur á megavattstund. Auknar væntingar eru um að Evrópuríki komist hjá skorti, bæði á næstu mánuðum og næsta vetur. Gasverð í Bretlandi hefur einnig lækkað talsvert á síðustu misserum.
Í umfjöllun Financial Times segir að um sé að ræða tímamótastund í orkukrísunni sem hefur ríkt í Evrópu. Mildara verður og minni eftirspurn en spáð fyrir um ásamt því að vel gekk að sækja í gas frá öðrum löndum hafi hjálpað að ná verðinu niður.
„Evrópa virðist hafa náð að venja sig af rússnesku gasi,“ hefur FT eftir greinanda hjá ráðgjafafyrirtækinu Eurasia Group. Hann bætti við að verðið væri enn hátt en ekki væri lengur þörf á að bæta við miklu álagi vegna væntinga um skort.