Verð á jarðgasi í Evrópu hækkaði um meira en fjórðung í morgun eftir að rússneska olíufyrirtækið rússnesk stjórnvöld tilkynntu að ekki yrði opnað á gasflutninga í gegnum Nord Stream 1 gasleiðsluna að fullu þar til vestræn ríki aflétta viðskiptaþvingunum sem settar voru á í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Dmitry Peskov, talsmaður Vladímír Pútín Rússlandsforseta, kenndi viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins (ESB), Bretlands og Kanada um erfiðleika Rússa að flytja jarðgas í gegnum Nord Stream 1 leiðsluna. Ummæli Peskov er skýrasta krafa rússneska stjórnvalda til þessa um að ESB dragi til baka viðskiptaþvinganir gegn því að Rússar hefji aftur gasflutninga til Evrópu, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

„Vandamálin við að flytja gasið má rekja til viðskiptaþvingana vestrænna ríkja á þjóðin okkar og nokkur fyrirtæki,“ sagði Peskov. „Það er engin önnur ástæða sem getur útskýrt þessi vandræði varðandi flutningana.“

Rússneska ríkisolíufyrirtækið Gazprom tilkynnti á föstudaginn að gasflutningur í gegnum leiðsluna yrði stöðvaður tímabundið vegna tæknilegra vandræða. Þýsk stjórnvöld og ESB hafa þó vefengt þessa útskýringu.

„Það er mikilvægt að muna að það er ekki bara ein leiðsla frá Rússlandi til Evrópu,“ er haft eftir Tim McPhie, talsmanni framkvæmdastjórnar ESB í orkumálum. „Ef það væri tæknilegt vandamál sem kæmi í veg fyrir flutninga í gegnum Nord Stream 1, þá væri mögulegt, ef vilji væri fyrir hendi, að afhenda gas til Evrópu í gegnum aðrar leiðslur. Það er ekki verið að grípa til þessara ráða núna.“

Evran veiktist gagnvart Bandaríkjadalnum í morgun og náði sínu lægsta gildi á síðustu tuttugu árum í 0,988 dölum.