Gavia Invest, nýstofnað fjárfestingafélag um eignarhluti í Sýn er komið með 16,08% hlut í Sýn. Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu til kauphallarinnar en fyrr í dag var tilkynnt að félagið væri komið með 14,95% hlut. Áætla má að Gavia hafi greitt um 2,7 milljarða króna fyrir hlutina.

Í morgun seldi Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, alla hluti sína í félaginu á um 2,2 milljarða króna og tilkynnt um leið að hann hyggst láta af störfum sem forstjóri félagsins fyrir lok þessa mánaðar.

Jón Skaftason leiðir hópinn að baki Gavia Invest en að honum koma einnig InfoCapital, fjárfestingafélag Reynis Grétarssonar, E&S 101 ehf., sem er í eigu Jonathan R. Rubini, Andri Gunnarsson og Mark Kroloff, en Rubini hefur lengi borið nafnbótina ríkasti maður Alaska.

Í samtali við mbl.is sagði Jón að til standi að boða til hluthafafundar hjá Sýn þar sem farið verði fram á stjórnarkjör. Gavia vilji hafa virka aðkomu að stjórn Sýnar.