Samtök olíuframleiðenda og fylgihnettir þeirra (e. OPEC+) munu auka olíuframleiðslu um hátt í 650 þúsund tunnur á dag í sumar, í stað um 400 þúsund eins og áður hafði staðið til. Talið er líklegt að Sádí-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin, tveir stærstu olíuframleiðendur innan samtakanna, muni standa undir bróðurparti framleiðsluaukningarinnar.
Bandalagið varð loks við ákalli um að auka framleiðslu eftir að Sádí-Arabía – sem er lykilríki samtakanna og hvers ákvarðanir ráða gjarnan för þar innan – gaf sig samkvæmt frétt Financial times um málið undan þrýstingi Bandaríkjanna, sem hafa lengi verið einn helsti bandamaður konungsríkisins á alþjóðasviðinu.
Skarpar hækkanir á heimsmarkaðsverði olíu síðan innrás Rússlands í Úkraínu hófst í lok febrúar og brugðist var við henni með víðtækum viðskiptaþvingunum hafa haft neikvæð áhrif á heimsbúskapinn, en hið fyrrnefnda hefur verið stór framleiðandi og útflutningsaðili olíu hingað til.
Ákvörðun Evrópusambandsins fyrr í vikunni um að leggja bann við meirihluta olíuinnflutnings frá Rússlandi hafði svo enn kynt undir ótta um olíu- og þar með orkuskort, en yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa nú gefið út að þau séu tilbúin að bæta upp fyrir brotthvarf Rússlands af markaðnum eftir að hafa haldið sig til hlés í þeim efnum frá því innrásin hófst.