Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) seldi í gær skuldabréf að fjárhæð 8,5 milljarðar íslenskra króna og var þetta fyrsta útgáfa bankans á Íslandi í yfir 16 ár.
Skuldabréfin eru gefin út undir umhverfisskuldabréfaumgjörð NIB og sá Landsbankinn um að kynna skuldabréfaútgáfuna til fjárfesta.
Skuldabréfin eru verðtryggð til sjö ára en í tilkynningu NIB segir að um mikilvægan áfanga sé að ræða.
Það sé ánægjulegt fyrir NIB að stíga aftur inn á íslenskan skuldabréfamarkað og bæta íslensku krónunni við fjölbreytt fjármögnunarform bankans.
Það sé sömuleiðis ánægjulegt að vera fyrsti erlendi skuldabréfaútgefandinn á íslenskum markaði frá árinu 2008. Skuldabréfaútgáfan geri NIB kleift að þjóna betur íslenskum viðskiptavinum sem vilja fjármagna fjárfestingar sínar í íslenskum krónum.
„Við erum mjög ánægð með niðurstöðu þessarar vel heppnuðu skuldabréfasölu og með samstarfið við NIB sem ég er fullviss um að framhald verði á. Það er styrkleikamerki fyrir íslenskan fjármálamarkað að svo öflugt erlent fjármálafyrirtæki gefi á ný út skuldabréf á Íslandi eftir langa fjarveru. NIB er með lánshæfiseinkunnina AAA og góð eftirspurn í útboðinu sýnir að íslenskir fjárfestar hafa mikinn áhuga á að fá slík bréf, gefin út af NIB, inn í eignasöfnin sín,“ segir Eyrún Anna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Eignastýringar og miðlunar Landsbankans.