Norræni fjár­festingar­bankinn (NIB) seldi í gær skulda­bréf að fjár­hæð 8,5 milljarðar ís­lenskra króna og var þetta fyrsta út­gáfa bankans á Ís­landi í yfir 16 ár.

Skulda­bréfin eru gefin út undir um­hverfis­skulda­bréf­aum­gjörð NIB og sá Lands­bankinn um að kynna skulda­bréfaút­gáfuna til fjár­festa.

Skulda­bréfin eru verð­tryggð til sjö ára en í til­kynningu NIB segir að um mikilvægan áfanga sé að ræða.

Það sé ánægju­legt fyrir NIB að stíga aftur inn á ís­lenskan skulda­bréfa­markað og bæta ís­lensku krónunni við fjöl­breytt fjár­mögnunar­form bankans.

Það sé sömu­leiðis ánægju­legt að vera fyrsti er­lendi skulda­bréfaút­gefandinn á ís­lenskum markaði frá árinu 2008. Skulda­bréfaút­gáfan geri NIB kleift að þjóna betur ís­lenskum við­skipta­vinum sem vilja fjár­magna fjár­festingar sínar í ís­lenskum krónum.

„Við erum mjög ánægð með niður­stöðu þessarar vel heppnuðu skulda­bréfasölu og með sam­starfið við NIB sem ég er full­viss um að fram­hald verði á. Það er styrk­leika­merki fyrir ís­lenskan fjár­mála­markað að svo öflugt er­lent fjár­mála­fyrir­tæki gefi á ný út skulda­bréf á Ís­landi eftir langa fjar­veru. NIB er með láns­hæfis­ein­kunnina AAA og góð eftir­spurn í út­boðinu sýnir að ís­lenskir fjár­festar hafa mikinn áhuga á að fá slík bréf, gefin út af NIB, inn í eignasöfnin sín,“ segir Eyrún Anna Einars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Eignastýringar og miðlunar Lands­bankans.