Í nýrri bók sinni, Landsdómsmálið, fjallar stjórnmálafræðiprófessorinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson um mál sem Alþingi höfðaði gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra fyrir landsdómi. Í eftirfarandi kafla bokarinnar fjallar hann um líkindi málsins gegn Geir við mál Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni. Þeir hafi báðir verið fórnarlömb „óáþreifanlegs og þó raunverulegs valds, sem reis einstaklingum yfir höfuð“.

Í Íslandsklukkunni segir frá því, er Jón Hreggviðsson gekk á fund lærdómsmannsins Arnae Arnæi í Kaupmannahöfn eftir að hafa hlotið dóm á Íslandi og sloppið úr fangelsi. Arnas kvaðst hafa gluggað í skjölin í máli hans. „Ég sá ekki ljóslega neina brú milli dómsins og undangeinginnar rannsóknar í málinu. Það virtist með öðrum orðum vera einn þeirra ágætu dóma sem vorir vísu feður og landstólpar þar heima telja sig tilknúða að fella af einhverjum gildari ástæðum en fullnægja kröfum réttvísinnar,“ sagði Arnas og bætti við: „Þitt mál kemur þér sjálfum lítið við Jón Hreggviðsson. Það er miklu stærra mál.“

Í Íslandsklukkunni var spurningin, hvor réði úrslitum, valdastéttin eða réttlætið. Þótt við fyrstu sýn kunni fátt að þykja líkt með kotbóndanum Jóni Hreggviðssyni og forsætisráðherranum Geir H. Haarde, var þeim það sameiginlegt, að þeir voru fórnarlamb óáþreifanlegs og þó raunverulegs valds, sem reis einstaklingum yfir höfuð. Engin brú var sýnileg milli dómanna yfir þeim og undangenginnar rannsóknar í málunum. Dómurinn yfir Geir, þótt léttvægur væri, var ekki kveðinn upp til að fullnægja kröfum réttvísinnar, heldur til að „róa almenning“ eins og Jóhanna Sigurðardóttir hafði orðað það. Þau Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon höfðu séð færi á að koma stjórnmálaandstæðingi á sakamannabekk. Urðu fáir vinstri menn aðrir en Össur Skarphéðinsson og Ögmundur Jónasson til að ganga úr þeim leik.

Mál Geirs kom honum sjálfum því lítið við; það var miklu stærra mál, eins og Arnas sagði. Hin ofsafengnu viðbrögð þeirra Jóhönnu og Steingríms, þegar horfur voru á því í ársbyrjun 2012, að Alþingi afturkallaði ákæruna á hendur Geir, sýna þetta gleggst. Í þessu var líka fólgin skýringin á linkind þeirra í Icesave-málinu, sem ella væri lítt skiljanleg: Það hentaði þeim að kenna Geir H. Haarde, Davíð Oddssyni og Sjálfstæðisflokknum um, að byrðar almennings gætu þyngst vegna Icesave-ævintýris Landsbankans.

Jafnframt reyndu þau Jóhanna og Steingrímur að bylta stjórnskipun landsins, þótt þeim yrði ekki kápan úr því klæðinu. Í landsdómsmálinu nutu þau aðstoðar þriggja kænna lögfræðinga, Tryggva Gunnarssonar, Jónatans Þórmundssonar og Eiríks Tómassonar, sem töldu sig eiga ýmissa harma að hefna, en mátu það einnig svo, að valdahlutföll í landinu hefðu gerbreyst. Geir og samherjar hans væru menn liðins tíma og hefðu ekki notað veitingarvald sitt samkvæmt óskráðum reglum Skólabræðralagsins íslenska.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson.
© BIG (VB MYND/BIG)

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.