Hlutabréf japanska fyrirtækisins Seven & i Holdings fóru á flug í dag eftir að hafa fengið nýtt yfirtökutilboð frá kanadíska fyrirtækinu Alimentation Couche-Tard. Gengið hækkaði um 9,5% og lauk í 4,7% hækkun í kauphöllinni í Tókýó.

Seven & i Holdings er móðurfyrirtæki sjoppukeðjunnar 7-Eleven en Alimentation Couche-Tard rekur svipaðar sjoppur undir nafninu Circle K.

Japanska fyrirtækið hafnaði fyrrum 38 milljarða dala tilboði kanadíska samkeppnisaðilans í september á þessu ári. Seven & i Holdings sagði þá að Circle K hefði vanmetið verðmæti fyrirtækisins.

Hefðu kaupin farið í gegn hefði yfirtakan skapað sjoppuveldi með 100 þúsund verslanir um allan heim.

Nýjasta tilboðið barst þann 19. september sl. en Seven & i Holdings hefur ekki viljað greina frá innihaldi tilboðsins.