Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði um 6,08% við lokun Kauphallarinnar í dag og nam velta félagsins 247 milljónir króna. Hlutabréfaverð Alvotech er nú 958 krónur á hvern hlut og hefur lækkað um tæplega þúsund krónur frá því stóð í 1.930 krónum þann 12. apríl.

Gengi félagsins hefur ekki verið lægra síðan 6. desember 2022 þegar það stóð í 956 krónum á hvern hlut.

Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að gengi Alvotech hafi hrunið við opnun markaðar í morgun og lækkaði um 11,76% rétt fyrir klukkan tíu. Þetta gerðist í kjölfar þess að bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitið (FDA) ákvað að afgreiða ekki umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir lyfjatæknihliðstæðu Humira.

Höggið virtist hafa haft keðjuverkandi áhrif en um hádegi í dag höfðu öll skráð fyrirtæki á aðalmarkaði Nasdaq lækkað, fyrir utan fasteignafélagið Reginn, sem stóð í stað.

Ölgerðin lækkaði einnig um 1,25% með 205 milljóna króna veltu og lækkaði Sýn einnig um 1,41% með 158 milljóna króna veltu.

Gengi Íslandsbanka hélt hins vegar áfram að hækka og hafði gengi bankans hækkað um 0,90% við lok dags með 328 milljóna króna veltu. Hlutabréf bankans lækkuðu eftir að samkomulag bankans við FME var opinberað fyrr í vikunni en tóku svo að hækka á ný þegar Birna Einarsdóttir tilkynnti að hún myndi stíga til hliðar sem bankastjóri.

Arion bankaði hækkað þar að auki um 0,58% og nam velta bankans 459 milljónir króna. Úrvalsvísitalan hækkað lítillega, eða um 0,13% og stendur hlutabréfaverð hennar í 2.255 krónum á hvern hluta.