Hlutabréfaverð Alvotech hefur hækkað um tæp 42% síðastliðna tvo mánuði en gengið stendur nú í 1.700 krónum eftir 7% hækkun í byrjun árs.
Um 120 milljón króna velta hefur verið með bréf félagsins í dag en hlutabréf líftæknilyfjafyrirtækisins náðu vopnum sínum undir lok árs eftir að hafa gengið brösuglega framan af.
Dagslokaengi félagsins stóð í 1250 krónum í byrjun nóvember í fyrra.
Von á niðurstöðu frá FDA
Í lok september staðfesti Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) að umsókn Alvotech um markaðsleyfi fyrir AVT02, líftæknilyfjahliðstæða í háum styrk með útskiptileika við Humira, væri tekin til afgreiðslu.
Frestur eftirlitsins til að komast að niðurstöðu um markaðsleyfið er miðaður við 24. febrúar næstkomandi.
Lyfjaeftirlitið hafði tvívegis synjað umsókn fyrirtækisins um markaðsleyfi og þurfti félagið að sækja sér aukið fjármagn til að standa straum af rekstri.
Í kjölfar ákvörðunar FDA í sumar seldi fjárfestingafélagið Aztiq, aðaleigandi Alvotech, tæplega tuttugu prósenta eignarhlut í samheitalyfjafyrirtækinu Lotus. Nokkrum vikum síðar sölutryggði Aztiq, sem er að stærstum hluta í eigu Róberts Wessman, 13 milljarða króna útboð til hæfra fjárfesta á víkjandi skuldabréfum með breytirétti.
Alvotech jók einnig samstarf sitt við Teva Pharmaceuticals, bandarískt dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. en hlutverk Teva í samstarfinu væri meðal annars að aðstoða við væntanlega úttekt FDA á framleiðsluaðstöðu Alvotech.
Samkvæmt tilkynningu Alvotech þann 20. september lítur FDA á málið með þeim hætti að umsókn Alvotech veiti fullnægjandi svör við öllum athugasemdum stofnunarinnar í kjölfar úttektar á framleiðsluaðstöðu Alvotech í mars sl., með tilliti til þeirra viðbótarupplýsinga sem Alvotech lagði fram með umsóknargögnunum.