Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,2% í 6,2 milljarða króna veltu í dag og hefur ekki verið hærri síðan í byrjun maí. Af 28 félögum aðalmarkaðarins þá hækkaði hlutabréfaverð 21 félags um meira en eitt prósent í dag.
Alvotech leiddi hækkanir en gengi líftæknilyfjafélagsins hækkaði um 10,9% í 2,7 milljarða króna veltu. Hlutabréfaverð Alvotech stendur nú í 1.780 krónum og er um 20% hærra en við lokun Kauphallarinnar á þriðjudaginn.
Alvotech birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung í gærkvöldi. Heildartekjur félagsins á fyrri árshelmingi tífölduðust milli ára og námu 33 milljörðum króna. Félagið skilaði jafnframt jákvæðri EBITDA-framlegð í fyrsta sinn en áfram var tap eftir skatta.
Einnig kann að spila inn í hækkunina að greint var frá því í gær að stórir erlendir hlutabréfasjóðir fjárfestu fyrir milljarða króna í hlutabréfum Alvotech á síðasta fjórðungi, líkt og Innherji fjallaði um.
Ætla má að hækkun á gengi Alvotech hafi haft smitáhrif á íslenska hlutabréfamarkaðinn í dag. Meðal þeirra félaga sem hækkuðu hvað mest í dag voru Eik, Nova og Skel fjárfestingarfélag en gengi hlutabréfa umræddra félaga hækkaði um meira en 3% í dag.
Þess má geta að Skel fjárfestingarfélag birti einnig uppgjör fyrir annan ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Skel tapaði 314 milljónum króna á fyrri árshelmingi, sem skýrist m.a. af hundruð milljóna króna niðurfærslu á virði eignarhlutar í Heimkaupum.