Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði um rúm 6% í um 771 milljón króna veltu í dag en líftæknilyfjafyrirtækið birtir árshlutauppgjör eftir lokun markaða í Bandaríkjunum í kvöld.
Dagslokagengi Alvotech var 1.605 krónur. Félagið greindi frá því í morgun að Lyfjastofnun Evrópu hefði samþykkt að taka til umsagnar umsókn um markaðsleyfi fyrir ATV06, fyrirhugaðri líftæknihliðstæðu Alvotech við Eyla (aflibercept).
Í tilkynningu frá Alvotech segir að markaðsleyfi í Evrópu gæti verið veitt á þriðja ársfjórðungi 2025.
Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hækkaði einnig um 6% í viðskiptum dagsins.
Gengi fjárfestingarfélagsins Skeljar hækkaði um tæp 5% en von er á árshlutauppgjöri samstæðunnar eftir lokun markaða í dag.
Gengi Amaroq hækkaði um 4% í viðskiptum dagsins en gengi málmleitarfélagsins hefur nú hækkað um tæp 7% síðustu tvo viðskiptadaga.
Í árshlutauppgjöri málmleitarfélagsins í gær sagði Eldur Ólafsson, stofnandi og forstjóri, að félagið muni að öllu óbreyttu ná að hefja gullframleiðslu fyrir árslok.
Hlutabréfaverð Hampiðjunnar og Icelandair hækkaði um 3% í viðskiptum dagsins á meðan Play leiddi lækkanir er gengi flugfélagsins fór niður um 2%.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 1,8% í viðskiptum dagsins og var heildarvelta á markaði 4,5 milljarðar.