Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,3% í 3,8 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Það má einkum rekja til þess að hlutabréf Arion banka og Marels hækkuðu um meira en 2% í viðskiptum dagsins.

Það voru hins vegar hlutabréf Alvotech sem hækkuðu mest af félögum Kauphallarinnar eða um 10,1% í 95 milljóna króna veltu. Lyfjalíftæknifyrirtækið tilkynnti í morgun um að Bandaríska lyfjaeftirlitið hefði samþykkt að taka til umsagnar umsókn um markaðsleyfi fyrir AVT04, fyrirhugaða lyfjahliðstæðu Alvotech við Stelara (ustekinumab).

Gengi hlutabréfa Alvotech stendur nú í 1.630 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra frá skráningu í júní síðastliðnum. Hlutabréf Alvotech á bandaríska hlutabréfamarkaðnum hefur hækkað um 6,8% í dag og stendur í 10,73 dölum þegar fréttin er skrifuð.

Icelandair lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,5% í 210 milljóna veltu. Gengi Icelandair stendur nú í 1,69 krónum á hlut.

Flugfélagið tilkynnti um flutningatölur í morgun en sætanýting í desember var 73%. Icelandair sagði að miklar raskanir vegna veðurfars og lokunar Reykjanesbrautarinnar hefði haft umtalsverð áhrif á stundvísi, sætanýtingu og flugætlun í síðasta mánuði.