Hlutabréfaverð Alvotech hefur hækkað um 11,5% í fyrstu viðskiptum eftir opnun Kauphallarinnar í dag. Gengi hlutabréfa Alvotech stendur í 1.160 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð en til samanburðar var dagslokagengi félagsins síðast hærra í byrjun apríl.
Líftæknifyrirtækið birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær og hækkaði afkomuspá sína fyrir árið 2025, líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun. Jafnframt boðaði félagið skráningu á Nasdaq markaðinn í Svíþjóð síðar í mánuðinum.
Hlutabréfaverð Nova, sem birti einnig uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær, hefur einnig hækkað um 5,3% í yfir hundrað milljóna viðskiptum í morgun. Gengi Nova stendur í 4,74 krónum á hlut og hefur nú hækkað um 12,6% í ár.
Hagnaður Nova á fyrsta ársfjórðungi nam 167 milljónum króna og jókst um fjórðung milli ára.
Samhliða birtingu árshlutauppgjörs félagsins var tilkynnt um að Margrét Tryggvadóttir hygðist láta af störfum sem forstjóri Nova í byrjun desember næstkomandi. Margrét, sem er stærsti einstaki hluthafi Nova með 2,2%, sagðist ætla að fylgja félaginu áfram sem virkur hluthafi.
Hlutabréf Arion banka og Kviku banka hafa einnig hækkað í fyrstu viðskiptum í dag en bankarnir tveir birtu báðir uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung í gær.
Gengi Sýnar, sem greindi í gær frá 344 milljóna tapi á fyrsta fjórðungi, hefur lækkað um 2,3% í fyrstu viðskiptum og stendur nú í 25 krónum á hlut.