Hlutabréfaverð Amaroq hækkaði í fyrstu viðskiptum í morgun eftir að félagið greindi frá hágæða gullfundi úr fyrstu rannsóknarborunum í Nanoq.
Gengi Amaroq hefur hækkað um 3% í rúmlega 200 milljón króna viðskiptum.
Gengi félagsins stendur í 145,5 krónum þegar þetta er skrifað en gengið stóð hæst í 150,5 krónum í marsmánuði í ár.
Hlutabréfaverð Amaroq hefur hækkað um rúm 21% á árinu en félagið býst við því að byrja gullframleiðslu í Nalunaq-námunni fyrir árslok.
„Þessar niðurstöður marka mikilvægan áfanga í rannsóknum okkar í Grænlandi og staðfesta mikla möguleika Nanoq sem gullvinnslusvæðis og styðja við skilning okkar á Nanortalik-gullbeltinu. Hið sýnilega gull sem við sjáum í kjarnanum frá Nanoq er í ætt við þann háa styrkleika gulls sem við þekkjum úr Nalunaq, og undirstrikar möguleika þess að finna gull í magni sem telja má í milljónum únsa,“ sagði Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, í Kauphallartilkynningu í morgun.