Hlutabréf Amaroq Minerals féllu um rúmlega 41% í fyrstu viðskiptum á kanadíska hlutabréfamarkaðnum TSX Venture Exchange í dag.
Markaðurinn opnaði klukkan 13:30 að íslenskum tíma, og fór hlutabréfaverðið strax niður í 1,70 kanadadali.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag voru viðskipti með bréf félagsins stöðvuð síðdegis eftir miklar og skyndilegar sveiflur í verði.
Kanadíska fjárfestingareftirlitið CIRO framkvæmdi stöðvunina klukkan 13:37 að staðartíma, á meðan stofnunin óskaði eftir frekari upplýsingum frá félaginu sjálfu.
Áður en stöðvun átti sér stað hafði hlutabréfaverð Amaroq nær tvöfaldast á nokkrum mínútum, úr 1,47 dölum í 2,90 dali.
Um var að ræða hæsta skráða verð í sögu félagsins og jafngildir sú hækkun 97% aukningu frá lokaverði dagsins áður.
Samkvæmt gögnum frá MarketWatch virðist hækkunin ekki hafa verið afleiðing stöðugra viðskipta yfir daginn, heldur má rekja hana til einstakra stórviðskipta sem hrundu af stað keðjuverkun á markaðnum.
Viðsnúningurinn sem fylgdi í kjölfarið hefur nú leitt til verulegrar verðlækkunar, og gengi Amaroq stendur nú í 1,70 dölum, sem þurrkar út nær alla hækkunina frá deginum áður.