Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,2% í 4,4 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fimmtán félög lækkuðu og sex félög hækkuðu í viðskiptum dagsins.

Mesta breytingin var á gengi hlutabréfa JBT Marels sem féll um 4% í 69 milljóna króna veltu. Hlutabréfaverð félagsins stendur nú í 16.900 krónum á hlut.

Fasteignafélögin fjögur á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu öll um 1,4-2,6% í dag. Af þeim lækkaði hlutabréfaverð Reita mest eða um 2,6% í 240 milljóna króna veltu og stendur nú í 111 krónum á hlut.

Play hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 5,8% í átta viðskiptum upp á ríflega eina milljón króna. Hlutabréfaverð, sem tilkynnti farþegatölur desembermánaðar eftir lokun Kauphallarinnar í gær, stendur nú í 1,10 krónum á hlut.

Auk Play hækkuðu hlutabréf Hampiðjunnar, Oculis og Amaroq Minerals um meira en tvö prósent í dag. Hlutabréfaverð málmleitarfélagsins Amaroq hækkaði um 2,7% í yfir 600 milljóna króna veltu og stendur nú í 194 krónum á hlut.

Dagslokagengi Amaroq hefur aldrei verið hærra frá skráningu félagsins. Gengi hlutabréfa Amaroq hefur hækkað um 18% undanfarinn mánuð.