Úrvalsvísitalan stóð óbreytt í 6 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Langmesta veltan, eða nærri 2 milljarðar króna, var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 2,1% eftir að bankinn greindi í morgun frá drögum að uppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung.
Uppgjörsdrögin gera ráð fyrir að arðsemi eiginfjár hjá Arion hafi verið um 13,2% í fyrra, sem er rétt yfir arðsemismarkmiði bankans. Hlutabréfaverð Arion stendur nú í 171 krónu á hlut og er um 2,4% hærra en í upphafi árs.
Auk Arion hækkuðu hlutabréf Oculis og Sjóvá um meira en 2% í dag. Augnlyfjaþróunarfélagið Oculis var hástökkvari dagsins en gengi hlutabréfa félagsins hækkaði um 3,2% í nærri milljarðs króna veltu og stendur nú í 3.240 krónum eftir 36% hækkun í ár.
Tvö félög aðalmarkaðarins lækkuðu um tvö prósent eða meira. Gengi málmleitarfélagsins Amaroq Minerals féll um 3% í tæplega hálfs milljarðs króna veltu og stendur nú í 196 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Amaroq er engu að síður 7,4% hærra en í upphafi árs.